Yfirvöld ferðamannaparadísar íhuga að banna bíla með brunavél

155

Formentera er minnst og syðst fjögurra stærstu eyjanna sem mynda Baleareyjaklasann í Miðjarðarhafi en hinar þrjár eru Mallorca, Ibiza og Minorca. Klasinn er vinsæll ferðamannastaður og eins og Íslendingar þekkja fylgir miklum straumi ferðamanna ekki aðeins kostir.

Á Formentera búa um 12.000 manns en Bleareyjaklasinn er sjálfstjórnarhérað Spánar. Allt að 15.000 bílar sem tilheyra ferðamönnum eru á hverjum tíma á Formentera auk bíla eyjaskeggja og þeim fylgir aukin loftmengun, umferðartafir og hávaði á stigi sem hefur orðið til þess að yfirvöld á Formentera íhuga nú að banna bíla með brunavél á eynni.

Citroën hefur skorist í leikinn og skaffað hótelum á eynni sex E-Méhari rafbíla til tilraunaverkefnis í þeirri von að bílarnir verði til þess að selja íbúum, fyrirtækjum og ekki síst yfirvöldum hugmyndina endanlega. Ráðherra ferðamannamála, Alejandra Ferrer, segir að hugmyndin hafi verið í deiglunni í nokkurn tíma en að engin ákvörðun hafi enn verið tekin.

Yfirvöld hafa þó hvatt hótel til að leigja gestum sínum rafbíla og um 200 fyrirtæki hafa þegar sýnt boði stjórnvalda um skattaafslátt gegn því að setja upp hraðhleðslustöð við eignir sínar áhuga en 14 hleðslustöðvar eru fyrir á eynni. Þá hefur Citroën boðið hótelum og bílaleigum á eynni afslátt af E-Méhari. Drægni E-Méhari er um 200 km en þar sem eyjan er aðeins rétt rúmir 83 km2 og 19 km löng ætti drægni ekki að vera vandamál.

E-Méhari er með plastyfirbyggingu og heldur sérstakur útlits. Í honum er 30 kWh rafhlaða og mótorinn er 50 kW og sendir aflið til framhjóla. Hann fór nýverið í sölu í Frakklandi og Citroën auglýsir hann sem skemmtilegan bíl fyrir fólk sem vill heimsækja ströndina með vindinn í hárinu. Hann er því nánast eins og klæðskerasniðinn fyrir Formentera en á eynni eru fyrir um 150 eintök af upprunalega Méhari en hann var afbrigði af 2CV, eða Bragga eins og hann er kallaður hérlendis, og var framleiddur 1968-88.

Sjá einnig: Mun Noregur banna sölu bíla með brunavél eftir 2025?

DEILA Á