VW mun sýna nýjan rafbíl á bílasýningunni í París

121
VW BUDD-E hugmyndabíllinn.

Volkswagen rær öllum árum að rafbílum þessi misserin og samkvæmt þýska miðlinum Auto Bild mun fyrirtækið sýna nýjan rafbíl á bílasýningunni í París í október.

Bíllinn verður settur til höfuðs BMW i3 og hefur vinnuheitið NUVe. Nýji rafbíllinn verður byggður á MEB undirvagni Volkswagen sem var sérstaklega hannaður fyrir rafbíla. Undirvagninn var sýndur á raftækjasýningunni í Las Vegas (CES) í byrjun árs ásamt BUDD-E hugmyndarafbíl VW.

NUVe á að hafa lengri drægni en bæverski rafbíllinn en þar sem hann kemur ekki á markað fyrr en um 2019 hefur BMW tíma til að vinna í og uppfæra sitt boð. NUVe er einn sex rafbíla sem Volkswagen vinnur að með MEB undirvagninn sem grunn. Fjórir þeirra eru taldir eiga góða möguleika á að rata í framleiðslu að því er þýski miðillinn greinir frá.

Volkswagen hefur breytt áherslum sínum mikið í kjölfar dieselsvindlsins og hyggst meðal annars reisa risarafhlöðuverksmiðju þar sem framleiddar verða rafhlöður í rafbíla sína.

DEILA Á