VW Bjalla er nýjasta Lego módelið

543

Flestir Íslendingar, í það minnsta af yngri kynslóðum, eiga minningar af því að hafa leikið sér með dönsku Lego kubbana. Módel Lego eru mörg hver í dag orðin mun stærri en áður auk þess sem lína af bílamódelum er nú í framleiðslu. VW Bjalla er nýjasta viðbótin við þá línu.

Bjallan er alls 1.167 kubbar og liturinn er Azure blár og innrétting ljósbrún. Á módelinu má sjá alla helstu hönnunarþættina sem einkenndu Bjölluna á sjöunda áratugnum, s.s. flata framrúðu og sveigð bretti auk þess sem í módelinu má finna loftkælda vél, í skottinu að sjálfsögðu. Módelinu fylgir brimbretti og kælibox en þar sem um Lego er að ræða er manni frjálst að sleppa þeim.

Ýmsir fítusar eru á Bjöllu módelinu. Þakið kemur t.d. af í heilu lagi, hurðir, húdd og skott er hægt að opna auk þess sem framsæti hallast fram líkt og til að hleypa farþegum í aftursæti sem einnig má halla fram. Þá fylgja fjögur sett af númeraplötum módelinu, frá Kaliforníu, Þýskalandi, Ástralíu og Bretlandi.

Módelið, sem er ætlað 16 ára og eldri, er 29 cm langt, 12 cm breitt og 15 cm hátt og mun kosta 799 danskar krónur, rétt tæpar 15.000 íslenskar þegar það fer í sölu 1. ágúst.

Sjá einnig: Lego Porsche 911 GT3 RS

DEILA Á