Volvo tilbúnir að hverfa frá dieselvélum

229

Í ljósi þess að neytendur virðast orðnir efasemdafullir í garð dieselvéla í kjölfar dieselskandals Volkswagen auk þess sem stjórnvöld setja æ strangari mengurnarkröfur á brunavélar telur Volvo senn tímabært að láta notkun dieselvéla lokið.

Sænski framleiðandinn sýndi nýverið tvær hugmyndir að nýjum bílum í 40 seríu sinni. Volvo gerir ráð fyrir að í þá fari bæði ný T5 tvinnvél sem sameinar krafta rafmótors og þriggja strokka bensínvélar. Einnig boðar Volvo rafbíl í 40 seríunni en hann verður sá fyrsti frá sænska framleiðandanum.

Håkan Samuelsson, forstjóri Volvo, sagði í samtali við Car&Driver að fyrirtækið hyggist skipta dieselvélum út fyrir tvinnvélar á næsta áratug:

Þetta er mjög aðlaðandi kostur í stað dieselvéla. Þær bjóða mun lægri CO2 útblástur en um það bil sama afl, bæði hvað varðar hestöfl og tog. Hvað kostnað varðar myndi ég segja að innan nokkurra ára munum við sjá víxlun, dieselvélar verða dýrari og tvinnkerfin ódýrari.

Nýja T5 tvinnvélin mun skila ámóta eyðslutölum og dieselvélar Volvo við raunverulega notkun og þó ekkert hafi enn verið staðfest er búist við að hún mengi undir 95 g/km af CO2. Samuelsson telur að aðferðir til að minnka útblástur dieselvéla, samkvæmt kröfum sem stjórnvöld muni í framtíðinni gera, muni gera vélarnar íþyngjandi:

Dieselvélar verða dýrari þar sem þær munu hafa mun þróaðri eftirmeðferð [útblásturs] með auka vökvum sem þarf ekki aðeins að bæta á einu sinni á ári, heldur mögulega í hvert sinn sem tankað er. Ég tel það mjög raunhæft að markaðshlutdeild þeirra muni minnka. Fari hún niður í núll þurfum við ekki að spá í þetta frekar. Látum framtíðina ráða, látum neytendur ráða. Við erum nógu sveigjanlegir til að geta framleitt bensín- og dieselvélar á sömu línu.

Samuelsson er annar stjórnandi bílafyrirtækis á skömmum tíma sem lýsir skoðunum sínum varðandi framtíð dieselvéla en áður hafði Paul Willis, stjóri Volkswagen í Bretlandi spáð yfirvofandi hnignun dieselvéla.

DEILA Á