Undarlega auðvelt að stela bílum með lyklalaust aðgengi

732

Allgemeiner Deutscher Automobil-Club (ADAC) er þýskt systurfélag Félags íslenskra bifreiðaeigenda. ADAC prófaði öryggi lyklalauss aðgengis 20 mismunandi bíla frá 12 mismunandi framleiðendum til að komast að því hve öruggt lyklalaust aðgengi er í raun og veru.

Niðurstöðurnar voru sláandi svo ekki sé fastar að orði kveðið. Með einföldum búnaði sem gat numið og magnað merkið sem aðgangslykill bílanna gefur frá sér er undarlega auðvelt að stela bílum með lyklalaust aðgengi. Búnaðurinn virkaði á alla 20 bílanna sem prófaðir voru.

Það eina sem þjófur þarf að gera er að komast með búnað sinn nógu nærri aðgangslykli bílsins sem hann girnist en aðgangslykillinn sendir merki sitt nokkra metra. Merkið úr aðgangslyklinum er svo numið af búnaði þjófsins sem magnar það upp í nokkurra tuga metra drægni. Bíllinn nemur svo merkið og þá er ekkert mál að opna hann, enda allar hurðir ólæstar, ræsa bílinn og aka á brott. Bílnum má svo aka allt þar til drepið er á honum en þá gæti hann verið kominn nánast hvert sem er.

Þessu verða bílframleiðendur að bregðast við hið snarasta.

DEILA Á