Tíst Elon Musk lækkaði virði hlutabréfa Samsung um 71 milljarð

270
Elon Musk er eitraður á Twitter.

Suður-Kóreski raftækjaframleiðandinn Samsung er einn stærsti rafhlöðuframleiðandi heims en sá kvittur komst á kreik að Tesla myndi kaupa rafhlöður af Samsung í bíla sína.

Forstjóri Tesla, Elon Musk, tísti um málið í gær og sagði rafbílaframleiðandann eingöngu vinna með japanska fyrirtækinu Panasonic að framleiðslu rafhlaðna í komandi Model 3 bíl Tesla og að fréttir um annað væru rangar.

Í kjölfarið lækkaði virði hlutabréfa Samsung, sem meðal annars skaffar rafhlöður í rafbíla Renault, um 580 milljónir dollara, um 71,3 milljarða króna eða um 8%. Á sama tíma hækkaði virði bréfa Panasonic um 3%.

Tesla og Panasonic opna senn risarafhlöðuverksmiðju sína í eyðimörkinni nærri Reno í Nevada. Verksmiðjan verður sú stærsta sinnar tegundar í heiminum og tvöfaldar framleiðslugetu Lithium-ion rafhlaðna í heiminum.