Þess vegna er undirakstursvörn á flutningabílum

827

Flestir vöru- og dráttarbílar sem og vagnar þeirra í Evrópu og Norður Ameríku hafa lága stuðara að aftan og á langhliðum til að hafa lágan árekstrarpunkt verði einhver fyrir því að aka á þá.

Tilurð stuðaranna, sem opinberlega kallast undirakstursvörn en eru einnig þekktir sem Mansfield stuðarar, sérstaklega vestanhafs, kom ekki til af góðu. 29. júní 1967 lést leikkonan Jayne Mansfield eftir að ökumaður hennar ók 1966 Buick Electra 225 bíl þeirra aftaná og undir vagn dráttarbíls. Mansfield, kærasti hennar, Sam Brody og ökumaðurinn Ronnie Harrison sátu öll í framsæti Buicksins og létust öll samstundis. Þrjú barna Mansfield voru í aftursæti bílsins og sluppu með minniháttar meiðsl.

Slysið fór hátt í bandarískum miðlum og olli miklu fjaðrafoki enda Mansfield afar fræg þar í landi. Bandaríska umferðarstofan (NHTSA) mælti með að gerð yrði krafa um undirakstursvörn aftan á ökutæki sem hátt er undir, hönnun sem síðan hefur orðið algild á vesturlöndum.

Notkun Mansfield stuðara er þó ekki útbreidd um heiminn og í Kína, hvaðan myndbandið að ofan kemur, er lítið um slíkar forvarnir líkt og ökumaður Porsche Cayenne fékk að kynnast árið 2014 þegar hann ók afturundir vagn flutningabíls. Ökumaður flutningabílsins varð einskis var og ók um 10 km með sportjeppann fastann undir afturenda vagnsins og lýsti atvikinu svona:

Ég varð einskis var fyrr en farið var að flauta við hlið mér. Sá hafði rúðuna niðri og reyndi að kalla til mín en ég heyrði ekkert hvað hann var að segja svo hann fór að benda á afturenda bílsins. Ég hélt hann væri að segja mér að auka hraðann svo ég gerði það. Að lokum stoppaði ég þó og þá sá ég bílinn fastan undir afturendanum.

Undir stýri á Porsche-inum var eftirlýstur fíkniefnasali með fullan bíl af kókaíni á leið til fundar við samstarfsmann. Þegar lögregla mætti á vettvang var hann umsvifalaust handtekinn en hann slapp lygilega vel frá óhappinu. Hann slapp hins vegar verr frá löngum armi laganna en ákæruvaldið fór fram á dauðarefsingu fyrir vörslu fíkniefna.

DEILA Á