Tesla Model S pallbíll myndsettur

117

Það eru þónokkrir bílaframleiðendur sem frægir eru fyrir pallbíla sína en Tesla er ekki einn þeirra. Ekki í bilið í það minnsta.

Það þýðir þó ekki að það væri ekki áhugavert að ímynda sér hvernig slíkur bíll gæti litið út og nú hefur eistneski myndsetjarinn Rain Prisk birt sína sýn byggða á Model S. Fyrir utan hið augljósa, pallinn, hefur Eistinn endurhannað framenda Model S og tekist býsna vel upp. Einnig hefur hann breytt hliðarsvip bílsins umtalsvert með því að draga línu frá Tesla merkinu í frambretti og aftur með bílnum og ýkt samliggjandi línu að neðan.

Þetta byggingalag er það sem Ástralir kalla ute en fyrir skemmstu sáum við ámóta myndsetningu af nýjum Subaru Baja.

Hugmyndin um Tesla pallbíl er alls ekki úr lausu lofti gripin en Elon Musk, forstjóri Tesla, sagði í viðtali 2013 að „ef maður reynir að leysa af hólmi bensínknúinn akstur verður maður að líta á hvað fólk er að kaupa. Best seldi bíll Bandaríkjanna er F-150. Ef fólk kýs þann bíl sem sinn, er það bíllinn sem við verðum að koma með.“

Pallbíll er þó ekki í kortunum ef marka má fréttir en Tesla er að drukkna í pöntunum fyrir Model 3 auk þess sem nýr Roadster virðist á dagskrá. Elon Musk er þó ekki þekktur fyrir að vera fyrirsjáanlegur svo maður í raun veit aldrei fyrr en á reynir með Tesla.

rainpriskpickup2

DEILA Á