Nýtt útlit Model S staðfest

293

Tesla hefur uppfært útlit Model S bíls síns í fyrsta sinn síðan hann kom á markað 2012.

Hávær orðrómur hefur verið um að uppfært útlit væri á næsta leiti og í dag bárust á netið myndir sem virtust staðfesta orðróminn.

Það fyrsta og augljósasta sem grípur augað er nýr framendi bílsins. Farið er stóra, svarta „grillið“ og í staðinn komið mjó og smekklegt rönd um merki framleiðandans. Stuðarinn líkist nú mun meira þeim sem er á Model X og Model 3 systurbílum Model S. Framljós bílsins voru einnig uppfærð og eru nú LED.

Model S getur nú hlaðið á 48 amperum, en áður 40A, svo þar sem svo há spenna býðst hleður bíllinn hraðar.

Að innan bætast við tvær nýjar sortir skrautinnleggja, Figured Ash Wood og Dark Ash Wood. HEPA loftsíunarkerfi Tesla sem fyrirfinnst í Model X mun hér eftir bjóðast sem aukabúnaður í Model S en kerfið hreinsar 99,97% sótagna frá útblæstri bíla umhverfis Model S úr loftinu sem dælt er inn í stjórnklefa bílsins auk þess sem það heldur úti ofnæmisvöldum, bakteríum og annarri mengun.

Verð Model S hækkar um 1.500 dollara, 185.000 krónur, á allar útfærslur samhliða uppfærslunni.

DEILA Á