Subaru rústaði eigin meti í Isle of Man TT

135

Mark Higgins rústaði í gær eigin meti um Snaefell Mountain Course brautina á eynni Mön þegar hann fór 60,725 km langa brautina á 17 mínútum og 35 sekúndum á 207 km meðalhraða á sérbreyttum Subaru Impreza WRX STI.

Subaru of America ákvað að sérsmíða bíl til að takast á við erfiða brautina en henni svipar til Nürburgring og Le Mans hvað varðar álag á vélar og fjöðrunarkerfi. Subaru of America fengu breska mótorsportfyrirtækið Prodrive og breytingafyrirtæki sitt, Subaru Technica International (STI), til liðs við sig til að smíða bíl á grunni 2016 Subaru Impreza WRX STI sérstaklega til að reyna við metið.

Þetta var frábær sprettur í dag, ekki síst þegar haft er í huga hve heitar aðstæðurnar voru og að malbikið var fremur mjúkt. Í lægri hita hefðum við haft fleiri hestöfl svo ég tel okkur eiga meira inni en það er frábært að hafa náð nýju meti.

Undirvagn bílsins er stórkostlegur. Það breytir miklu að aka bíl sem er hannaður sérstaklega fyrir brautina. Hann gaf mér færi á að ná betri tíma á hverju svæði brautarinnar í tæknilega erfiðari köflum brautarinnar.

sagði hæstánægður Mark Higgins þegar metið var í höfn.

Fyrra met, 19:26 á meðalhraðanum 188,3 km/klst, átti Higgins sjálfur en það var einnig sett á Subaru árið 2014 en þá á nær óbreyttum Impreza WRX STI. Það er rétt að geta þess að Isle of Man TT keppnin er mótorhjólakeppni fyrst og fremst en ekki er keppt í bílaflokki. Það er því mest til gamans gert að setja met á bílum í keppninni þó það sé vissulega dauðans alvara að aka brautina á útopnu en frá fyrstu keppni 1907 til ársins 2015 hafa 141 keppendur látið lífið í keppninni eða á æfingum henni tengdri. Tveir hafa þegar bæst við tölu látinna í ár.

Enn hefur Subaru ekki gefið út myndband af methring Higgins líkt þeir gerðu af metinu 2014 en það hlýtur að styttast í það. Þar til verðum við að una við þessar stuttu stiklur teknar af áhorfendum.