Stjóri VW í Bretlandi spáir hnignun dieselbíla

78

Paul Willis, stjóri Volkswagen Group í Bretlandi spáir minnst 30% sölusamdrætti diesel bíla þarlendis þar sem fólk kaupir nú fleiri tvinn- og rafbíla en áður.

„Hlutfall dieselbíla mun lækka. Það er nú þegar að gerast. Smábílar eru fyrstu fórnarlömbin,“ sagði Willis samkvæmt Autocar á „The future of the car“ rástefnunni sem haldin var af Financial Times . Versta spá Willis gerir ráð fyrir allt að 40% samdrætti en hann gaf ekki upp tímaramma fyrir spá sína.

Markaðshlutdeild dieselbíla í Bretlandi er í dag 55% en var aðeins 14% 1999 þegar ríkisstjórn Tony Blair hóf að greiða fyrir dieselbílum með skattalækkunum í því augnamiði að bæta loftgæði og minnka CO2 útblástur.

Tvinn- og rafbílar seljast sem aldrei fyrr og í febrúar síðastliðinum seldust fleiri rafbílar í Bretlandi en allt árið 2011 þarlendis.

Willis gerir þó ráð fyrir því að ný dieselvélatækni muni tefja fyrir hnignun dieselvéla sem og sú staðreynd að fjölmargir þurfa bíla sem farið geta lengra á tankfylli en rafbílar bjóða enn sem komið er. Aðspurður um hvort endursöluverð dieselbíla sé farið að endurspegla minnkandi eftirspurn sagði Willis: „Við sjáum enga lækkun.“

DEILA Á