Soichiro Honda: sveimhuga hagleikssmiður

475

Soichiro Honda fæddist 17. nóvember 1906 í smábænum Tenryū í Japan. Bernskunni eyddi hann að stórum hluta á verkstæði föður síns, Gihei, sem var járnsmiður sem einnig tók að sér reiðhjólaviðgerðir. Allt frá frumbernsku hafði hann mikinn áhuga á vélknúnum tækjum. Á efri árum sagði hann oft söguna af því þegar hann sá bíl í fyrsta skipti og því hvernig lyktin sem vélin gaf frá sér hefði aldrei nokkurn tíma runnið honum úr minni.

Honda hafði ekki mikinn áhuga á hefðbundinni menntun. Í grunnskólanum fengu nemendur einkunnarspjöld sem þeir áttu að færa foreldrum sínum og færa kennaranum þau svo til baka stimpluðum með stimpilmarki fjölskyldunnar því til sönnunar að foreldrarnir hafi séð einkunnarspjaldið. Honda var ekki hrifinn af þessu fyrirkomulagi og útbjó sér stimpil úr gúmmíhlíf fyrir reiðhjólapedala og stimplaði sín einkunarspjöld einfaldlega sjálfur. Upp komst um svindlið þegar hann fór að útbúa stimpla fyrir samnemendur sína. Hann gerði sér ekki grein fyrir því að stimpilinn ætti að vera spegilmynd hálfs fjölskyldunafns síns skrifað lóðrétt. Það vildi bara svo til að hans fjölskyldunafn,  本田, var samhverft þegar það var skrifað lóðrétt svo hans komst upp með að svindla fyrir sjálfan sig.

 Aðeins fimmtán ára gamall og án nokkurrar formlegrar menntunar flutti Honda til Tokyo í leit að atvinnnu. Hann fékk lærlingsstöðu á Tokyo Art Shokai verkstæðinu árið 1922 og var þar í sex ár. 1923 hóf verkstæðið þáttöku í kappakstursseríu. Honda hafði stöðu vélvirkja í liðinu. 1924 vann liðið sinn fyrsta sigur. Honda lauk námi við verkstæðið 1928 flutti aftur á heimaslóðir eða til borgarinnar Hamamatsu. Þar opnaði hann útibú verkstæðisins sem hann hafði verið lærlingur á, Hamamatsu Art Shokai, þá 22 ára gamall.

Soichiro Honda hélt áfram að taka þátt í kappakstri. 7. júní 1936 sat hann sjáfur undir stýri á keppnisbíl sínum i keppni á Tamagawa brautinni þegar hann lenti í árekstri. Hann slasaðist lítið og slysið dróg ekkert úr áhuga hans á kappakstri. Það var þó vegna þrýstings frá föður hans og eiginkonu að hann samþykkti að aka ekki sjálfur í keppni aftur.

Þetta sama ár stofnaði Honda fyrirtækið Tōkai Seiki með það að markmiði að framleiða stimpilhringi. Það byrjaði ekki vel því fyrstu framleiðslulotur stóðust ekki gæðakröfur. Honda settist því á skólabekk við tækniháskólann í Hamamatsu til að læra meira um málmvinnslu og framleiðsluaðferðir. Námið borgaði sig því þrem árum eftir stofnun Tōkai Seiki framleiddi fyrirtækið stimpilhringi í fremstu röð og helsti kaupandi var Toyota. Þá yfirgaf hann Hamamatsu Art Shokai til að einbeita sér að Tōkai Seiki og eftirlét hann lærlingum sínum fyrirtækið.

Type A var fyrsta fjöldaframleidda vélknúna farartæki Honda Motor Company.
Type A var fyrsta fjöldaframleidda vélknúna farartæki Honda Motor Company.

1944, meðan á seinni heimsstyrjöld stóð, var Tōkai Seiki verksmiðjan jöfnðu við jörðu af sprengjum sem varpað var úr bandarískum B-29 sprengjuflugvélum. Eftir stríð seldi Honda leifar verksmiðjunnar til Toyota fyrir 450.000 jen. Upphæðina notaði Honda til að stofna Honda Technical Research Institute (tækniþróunarstofnun Honda) árið 1946. Tveimur árum síðar var nafni fyrirtækisins var breytt í Honda Motor Company og fyrsta mótorknúna farartækið sem gekk fyrir vél sem smíðuð var frá grunni í nafni Honda kom á markað. Þar var á ferðinni vélknúið reiðhjól og bar nafnið Type A. Það var í sölu allt til 1951 en þá hafði Type D leyst það af hólmi. Type D var alvöru vélhjól, byggt á burðugri grind og knúið af þriggja hestafla, 98 rúmsentimetra tvígengisvél. Type D var fyrsta mótohjólið í Draumaseríu Honda og bæði Type A og D teljast á meðal mikilvægustu farartækja japanskrar tækniframfarasögu.

1958 Honda Super Cub af fyrstu kynslóð.
1958 Honda Super Cub af fyrstu kynslóð.

Honda Super Cub kom fram á sjónarsviðið árið 1958 og hefur verið framleitt óslitið allar götur síðan þá í alls fimmtán löndum. Árið eftir að Super Cub kom á markað reyndi Honda fyrir sér í Bandaríkjunum með Super Cub sem sína helstu söluvöru. 1963 var herferðin „þú hittir indælasta fólkið á Honda“ sett í gang og í árslok var Honda söluhæsta vélhjólamerki Bandaríkjanna. Herferðin gekk í tólf ár sleitulaust og tryggði tengsl Honda við vélhjól í hugum bandaríkjamanna. Tengsl sem enn hafa ekki verið rofin. 2014 náði heildarframleiðslan á Super Cub frá upphafi 87 milljón eintökum sem gerir Super Cub að lang mest framleidda vélhjóli sögunnar.

Honda Civic 1973 af fyrstu kynslóð.
Honda Civic 1973 af fyrstu kynslóð.

Honda Motor Company hóf framleiðslu bíla á heimamarkaði 1963. Það var ekki fyrr en áratug síðar, eða með tilkomu Civic að Honda varð alþjóðlegur keppandi á bílamarkaði. Bíllinn gekk einkar vel í Bandaríkjunum enda vélin í Civic einstaklega áreiðanleg og sparneytin en það var einmitt hve spör hún var á dropann sem gerði Civic svo vinsælan þar sem bensínkreppan skall á Bandaríkjunum þetta sama ár. Með tilkomu Accord þremur árum síðar var sess Honda Motor Company sem bílaframleiðanda endanlega tryggður.

Soichiro Honda var forseti Honda Motor Company uns hann settist í helgan stein 1973. Í ellinni eyddi hann tíma sínum í flug en bæði hann og eiginkona hans, Sachi, höfðu flugmannspróf. Þá var hann skíðaáhugamaður og hafði gaman af svifdrekum og loftbelgjum auk þess að vera afar fær listmálari. Honda setti aldrei þrýsting á börnin sín um að taka við fyrirtækinu af sér en einn sona hans, Hirotoshi, stofnaði Mugen Motorsports, fyrirtæki sem sérhæfir sig í breytingum á Honda bílum auk smíði kappakstursbíla.

Soichiro Honda lést úr lifrarbilun þann 5. ágúst 1991.

DEILA Á