Skoda og tékkneskir forsetar í 90 ár

502

Nú í maí eru rétt 90 ár liðin frá því að fyrsti forseti Tékkóslóvakíu, Tomáš Garrigue Masaryk, fékk Skoda Hispano-Suiza forsetabíl afhentan. Hluta sögu Tékkóslóvakíu og allt frá stofnun Tékklands 1993 hafa forsetar landanna notast við Skoda bifreiðar.

Tékkóslóvakía varð til þegar landið lýsti yfir sjálfstæði fá Austurrísk-Ungverska keisaradæminu í október 1918. Tomáš Garrigue Masaryk var fyrsti forseti Tékkóslóvakíu og gegndi embætti til 1935.

Václav Klement (t.v.) og Václav Laurin, stofnendur Klement & Laurin. Mynd: Wikimedia Commons
Václav Klement (t.v.) og Václav Laurin, stofnendur Klement & Laurin. Mynd: Wikimedia Commons

Fyrsti eðalvagn Skoda var smíðaður á mikilvægum tíma í sögu framleiðandans. 1925 sameinaðist fyrirtækið Lauren & Klement frá Mladá Boleslav Skoda, sem þá var staðsett í Pilsen og eitt stærsta iðnaðarfyrirtæki Evrópu. Það sama ár fékk Skoda leyfi hins virta franska framleiðanda Hispano-Suiza til að framleiða takmarkað upplag 100 bíla þeirra undir eigin merkjum en frönsku bílarnir þóttu frammúrskarandi á sínum tíma.

Tomáš Garrigue Masaryk, eða TGM eins og hann er gjarna kallaður í Tékklandi, var afar hrifinn af áformum Skoda og vildi fá slíkan bíl fyrir embætti sitt. Pöntunin barst Skoda 25. júlí 1925 með nokkrum séróskum þjóðhöfðingjans sjálfs. Eftir að hönnun yfirbyggingarinnar hafði verið samþykkt, með glerskilrúmi milli ökumanns og farþegarýmis, var Carrosserie Kellner Frères vagnasmiðurinn frá París fenginn til að smíðinnar.

Tomáš Garrigue Masaryk við Skoda Hispano-Suiza forsetabíl sinn.
Tomáš Garrigue Masaryk við Skoda Hispano-Suiza forsetabíl sinn.

Snemma í maí 1926 var fysta eintak Skoda Hispano-Suiza afhent skrifstofu TGM fyrir 280.000 tékkneskar krónur með númerið N-1. Á fjórða áratugnum fékk bíllinn nýtt númer, P-118, þar sem P-ið stóð fyrir höfuðborgina Prag. Eftir að forsetinn lét af völdum í desember 1935, þá 85 ára gamall, var bíllinn geymdur á heimili hans í kastalanum í Prag til 17. mars 1936 er bíllinn var sendur aftur til framleiðanda síns. Eftir það eru örlög bílsins ókunn.

Skoda Hispano-Suiza bjó yfir tæknibúnaði sem undirstrikaði hve háþróaður bíllinn var á sínum tíma. Sjö legu sveifarás tryggði ljúfan gang 6.654 rúmsentimetra sex strokka vélarinnar.

Á umbrotatímunum eftir seinni heimsstyrjöld skaffaði Skoda forseta Tékkóslóvakíu aftur bíl. Að þessu sinni var hann brynvarinn og kallaðist Skoda VOS, Vládní osobní speciál, sem á íslensku myndi útleggjast sem sérstakur bíll fyrir ríkisstjórnina. VOS var notchback stallbakur og glæsilegur í alla staði, framleiddur 1949-52 í um 100 eintökum. Hann fékkst í langri útgáfu og það var slíkur bíll sem forsetaembættið fékk.

1950 Skoda VOS-L. Mynd: Ralf Roletschek / Wikimedia Commons.
1950 Skoda VOS-L. Mynd: Ralf Roletschek / Wikimedia Commons.

Brynvarin lengri útgáfa VOS-L var 5,7 m langur, 1,95 m hár og 1,75 m breiður. VOS-L vóg 4,4 tonn og 52 mm rúður hans voru skotheldar. Tveir forsetar Tékkóslóvakíu notuðust við VOS-L, Klement Gottwald og Antonín Zápotocký.

Síðustu áratugina fyrir fall Sovétríkjanna óku fyrirmenni Tékkóslóvakíu aðallega um á ZIS og ZIL bílum. Fjórum árum eftir fall Sovétríkjanna 1989 skiptist Tékkóslóvakía upp í tvö ríki; Tékkland og Slóvakíu og Skoda sneri aftur til þjónustu við æðstu ráðamenn.  Václav Havel, síðasti forseti Tékkóslóvakíu, varð fyrsti forseti Tékklands þegar hann tók við embætti 2. febrúar 1993 en hann var baráttumaður fyrir mannréttindum og mikill bílaáhugamaður. Havel vildi persónulega taka þátt í þróun bíla Skoda og krafðist þess meðal annars að fá að prufa fyrstu kynslóðir Fabia, Octavia og Superb meðan þeir voru í þróun.

Núverandi forsetabíll Tékklands er 2015 Skoda Superb.
Núverandi forsetabíll Tékklands er 2015 Skoda Superb.

Václav Klaus var eftirmaður Havel þegar hann tók við embætti 2003 og notaðist við Skoda Superb af fyrstu og annarri kynslóð þau tvö fimm ára kjörtímabil sem hann var forseti. Núverandi forseti Tékklands, Miloš Zeman, notast einnig við Skoda Superb en hann fékk spánýjan Superb af þriðju kynslóð afhentan við kastalann í Prag 5. júní 2015. Sá er Black Magic svartur með perluáferð í Laurin & Klement útfærslu. Í bílnum er 276 hestafla 2.0L TSI L4 bensínvél og DSG sjálfskipting.