Skoda forsýnir Kodiaq

412

Skoda er með nýjan sportjeppa á leiðinni en bíllinn verður frumsýndur í lokaútgáfu í september. Tékkneski framleiðandinn hefur nú sent frá sér tvær skissur sem sýna útlit sportjeppans en hann hefur hingað til aðeins sést undir ábreiðu.

Sportjeppinn hefur fengið nafnið Kodiaq og byggir á Vision S hugmyndabíl tékkneska framleiðandans sem var sýndur í Genf í vor. Kodiaq verður talsvert stærri en Yeti, sem í dag er stærsti bíll Skoda, og verður í boði bæði í fimm og sjö sæta útgáfum.

Útlit bílsins er hönnun yfirhönnuðar Skoda, Jozef Kaban, sem áður vann hjá Audi og átti hönd í bagga við hönnun Bugatti Veyron. Bíllinn fylgir hönnunarmáli annarra nýlegra Skoda bifreiða en hönnunarmálið segir Skoda innblásið af hefðum sem viðhafðar eru í bohemískri kristallist.

Skoda hefur enn ekki birt myndir sem gefa innarými til kynna en tékkneski framleiðandinn lofar því að „innréttingin rími við glæsilega hönnun ytra byrðis.“

DEILA Á