Skoda birtir myndir af Vision S hugmyndabílnum

174

Skoda hefur birt myndir sem sýna Vision S hugmyndabílinn sem fyrirtækið mun sýna á bílasýningunni í Genf sem fram fer 3.-13. mars.

Bíllinn fylgir hönnunarmáli annarra nýlegra Skoda bifreiða en hönnunarmálið segir Skoda „innblásið af tékkneskum kúbisma og hefðum sem viðhafðar eru í bohemískri kristallist.“

Bíllinn skartar skörpum línum, mjóum LED aðalljósum og LED ljósarönd í framstuðara. Einkennisgrill Skoda er til staðar, húddið er breitt og veglegt og yfir nýjum loftdreifara að aftan er LED ljósarönd sem spannar breidd bílsins. Þá eru hurðahandföngin innfelld í hurðar bílsins.

Vision S er tvíorkudrifinn og notar 1.4 lítra, 154 hestafla TSI bensínvél sem togar 250 Nm ásamt rafmótor sem skaffar 54 hestöfl og 220 Nm. Afl mótoranna fer í gegnum DSG skiptingu sem skilar aflinu í framhjólin. Afturdrifið fær eigin 114 hestafla, 270 Nm rafmótor sem vinnur sjálfstætt án vélrænnar tengingar við framdrifið. Tölvubúnaður stjórnar afldreifingu til hjólanna til að tryggja kjörafldreifingu hverju sinni.

Hröðun í 100 km/klst tekur 7,4 sekúndur og hámarkshraði er rétt um 200 km/klst.

Škoda Vision S hugmyndabíllinn.
Yfir nýjum loftdreifara að aftan er LED ljósarönd sem spannar breidd bílsins.

Skoda segir bílinn geta ekið fyrir rafmagni einu saman allt að 50 km þökk sé 12,4 kWh rafhlöðu sem staðsett er fyrir framan afturöxul og þegar bensínvélin tekur við verður drægið 1.000 kílómetrar. Eldsneytiseyðla er um 1,9 lítrar á hundraði og koltvísýringsútblástur 45 g/km.

Hugmyndabíllinn er 4,7 m á lengd, 1,91 m á breidd og 1,68 m á hæð með 2,79 m á milli hjóla og er fyrsti bíll Skoda til að hafa sæti fyrir sex manns í þremur sætaröðum. Búist er við að bíllinn verði sýndur í endanlegri útgáfu á bílasýningunni í París í október og muni þá bera nafnið Kodiaq en Skoda skráði nafnið sem vörumerki sitt í desember síðastliðnum.

DEILA Á