Skjátími Chris Evans helmingaður í síðasta þætti Top Gear

259
Chris Evans hefur jafn mikla ástæðu til að vera niðurlútur eins og Matt LeBlanc til að brosa.

Skjátími Chris Evans hefur verið tæplega helmingaður í þriðja þætti Top Gear samanborið við fyrsta þátt nýju seríunnar en í honum var hann á skjánum í 49 mínútur en í nýjasta þættinum var Evans aðeins í 29 mínútur á skjánum.

Matt LeBlanc hefur nú tekið yfir stúdíókynningar þáttarins, þó Evans sjái enn um viðtölin við gesti, auk þess sem fregnir berast af því að stjórnendur aukaþáttarins Extra Gear, Rory Reid og Chris Harris, muni fá aukið vægi í aðalþættinum en Reid ljóstraði því upp á Twitter í gær.


Tístarar voru mun hrifnari af þriðja þætti en fyrri tveimur og veðbankar hafa minnkað líkurnar til muna á að framleiðslu þáttanna verði hætt eftir þessa þáttaröð eða úr 6/4 í 1/2. Fyrir íslenska tippara væri það úr stuðlinum 1.5 niður í 0.5.

Atriði með Matt LeBlanc og Ken Block á Hoonicorn Mustang Hoonigan Racing sem kom Top Gear í klandur þegar það var tekið upp við Cenotaph stíðsminnismerkið var sýnt í þættinum en efnið sem tekið var upp við Cenotaph hafði verið klippt út, Bretum almennt til ánægju.

Þrátt fyrir lofið var áhorf þáttarins arfaslakt og enn lélegra en á þátt númer tvö en aðeins 2,37 milljónir horfðu á þáttinn í Bretlandi á sunnudagskvöld. Þetta var næst lélegasta áhorf á Top Gear þátt síðan hann hóf aðra göngu sína, þá með Jeremy Clarkson í broddi fylkingar, árið 2002.