Sigrar og þrot Bugatti

450

Þrátt fyrir að framleiða opinberlega hraðskreiðustu framleiðslubíla allra tíma í Veyron SS og Veyron Grand Sport Vitesse er saga Bugatti ekki aðeins saga sigra og farsældar heldur einnig óheppni og óvildar.

Automobiles Ettore Bugatti var stofnað af Ítalanum Ettore Bugatti í þá þýsku borginni Molsheim árið 1909 en franska borgin var innlimuð í Þýskaland frá 1871-1918 og aftur 1940-44. Bílar Bugatti voru frægir bæði fyrir frammúrskarandi árangur í kappakstri sem og fyrir einstaklega fallega hönnun en Ettore var af listamannaættum og leit á sjálfan sig bæði sem listamann og framleiðanda.

Bugatti Type 35C.
Bugatti Type 35C.

1924 hóf Bugatti að keppa á Type 35 en hann er mögulega farsælasti kappakstursbíll allra tíma hafandi haft sigur í yfir 1.000 keppnum. Í bílnum var 2.0L línu átta sem skilaði 90 hestöflum. Type 35 sigraði t.a.m. Targa Florio í fimm ár samfellt frá 1925-29. Þegar best lét hafðist sigur á Type 35 í fjórtán keppnum á viku. Type 35 var framleiddur í alls átta útgáfum.

Sigur í fyrsta Mónakó kappakstrinum árið 1929 vannst á Bugatti Type 35B. Í 35B var 138 hestafla 2.3L vél með supercharger. Sigursælni Bugatti náði hámarki þegar ökumaðurinn Jean-Pierre Wimille sigraði 24h Le Mans tvisvar árin 1937 ásamt Robert Bonoist og 1939 ásamt Pierre Veyron en það var síðasti stóri sigur upphaflega Bugatti. Louis Chiron náði oftast á verðlaunapall ökumanna Bugatti en nýjasti ofurbíll Bugatti heitir eftir honum.

Ettore þótti heldur sérvitur og var ekki mikið fyrir að geðjast viðskiptavinum. Frægt varð svar Ettore þegar eigandi Type 35 bíls kvartaði undan því að hann væri erfiður í gang: „Herra. Ef þú hefur efni á Type 35, hefur þú sannarlega efni á upphituðum bílskúr!“

Ettore Bugatti árið 1932.
Ettore Bugatti árið 1932.

1938 hóf Bugatti smíði keppnisflugvélar sem var ætlað að hafa betur en þýskir keppinautar í Deutsch de la Meurthe keppninni. Úr varð Bugatti Model 100, hönnuð af Belganum Louis De Monge en smíði flugvélarinnar var ekki lokið fyrir keppnina svo hún tók ekki þátt. Flugvélin var því sett í geymslu en innan árs hafði seinni heimsstyrjöldin brotist út. Vélin flaug því aldrei.

Upphafið að endinum

Jean Bugatti, elsti sonur Ettore, lést í hörmulegu slysi við prófanir Type 57 nærri verksmiðjunni í Molsheim 11. ágúst 1939. Tæpum tveimur mánuðum síðar hófst seinni heimsstyrjöldin. Meðan styrjöldin geysaði lagði Ettore grunninn að áformum um að reisa nýja verksmiðju nærri París þar sem hann ætlaði að framleiða nýja Type 73 bíla sína þegar stríðinu lyki. Eftir átökin var verksmiðjan í Molsheim rústir einar en franska stjórnin gerði hana þó upptæka vegna ítalskra róta Ettore en Ítalir höfði verið í bandalagi með nasistastjórn Þýskalands í stríðinu.

Ettore Bugatti lést síðsumars 1947 eftir erfið veikindi, þá 65 ára gamall. Verksmiðjan í úthverfi Parísar reis aldrei en fáeinum mánuðum áður en Ettore lést skilaði franska stjórnin fyrirtækinu verksmiðju sinni. Ettore var svo heilsuveill að trúlega hafði hann aldrei hugmynd um að verksmiðjunni hafði verið skilað. Bugatti fyrirtækið varð aldrei samt eftir dauða Ettore og eftir langt tímabil hnignunar birtist Bugatti bíll í síðasta skipti opinberlega á bílasýningunni í París 1952. Fyrirtækið lagði upp laupana síðar sama ár.

Endurlífgunartilraunir báru ekki árangur

Roland Bugatti, sonur Ettore, reyndi að endurvekja merkið um miðjan sjötta áratuginn með Type 251 keppnisbíl með miðjusetta vél en þegar hann reyndist ekki standast væntingar var framleiðslu hætt.

Á sjöunda áratugnum hannaði Virgil Exner bíl á grunni síðasta Type 101 undirvagns Bugatti sem smíðaður var af Ghia og sýndur á bílasýningunni í Tórínó 1965. Enginn vildi fjármagna áframhald verkefnisins svo það féll niður dautt.

Ítalski ofurbíllinn Bugatti

Verksmiðja Bugatti í Modena á Ítalíu,
Verksmiðja Bugatti í Modena á Ítalíu,

Ítalski athafnamaðurinn Romano Artioli eignaðist Bugatti merkið 1987 og stofnaði Bugatti Automobili S.p.A. Artioli fékk arkitektinn Giampaolo Benedini til að teikna verksmiðju fyrir starfsemina sem var byggð í Modena á Ítalíu. Bygging hennar hófst 1988 og samhliða hófst þróun fyrsta bíls hins endurlífgaða merkis. Verksmiðjan var vígð 1990.

1989 voru áform um endurvakningu Bugatti kynnt af Paolo Stanzani og Marcello Gandini, hönnuða Lamborghini Miura og Countach. Bugatti EB110 fór í framleiðslu 1991, réttum 110 árum eftir fæðingu Ettore. Í EB110 var koltrefjastyrktur undirvagn smíðaður af franska flugvélafyrirtækinu Aérospatiale. 60 ventla, fjór-turbo, miðjusett 3.5L V12 vélin skilaði 560 hestöflum og kom 1.620 kg bílnum í 100 km hraða á 3,2 sekúndum með 343 km/klst hámarkshraða.Bíllinn sló ekki beinlínis í gegn án þess þó að verða fyrirtækinu fjárhagslegur fjötur um fót.

Bugatti EB110.
Bugatti EB110.

SS útgáfan kom út ári seinna og var enn aflmeiri og léttari, 612 hestöfl en skilaði sama 0-100 tíma. Hámarkshraði SS, eða SuperSport, var þó ögn hærri eða 348 km/klst. Snemma árs 1994 keypti Formula 1 ökumaðurinn Michael Schumacher gulan EB110 SS en út á það fékk fyrirtækið mikla auglýsingu. Schumacher átti bílinn til 2003.

1993 kynnti Bugatti frumgerð stallbaks sem átti að heita EB112 en af framleiðslu hans varð ekki.

Allt virtist í blóma hjá Bugatti Automobili og fyrirtækið keypti Lotus Cars af General Motors 1993 gegnum eingarhaldsfélag sitt ACBN Holdings S.A. en Artioli huggðist setja Bugatti á alþjóðlega hlutabréfamarkaði. Velgengnin varð þó skammlíf en fyrirtækið var tekið til gjaldþrotaskipta árið 1995. Almennt var talið að döpru efnahagsástandi og dræmri sölu væri um að kenna en Artioli hefur allt aðra sögu að segja í heimildarmyndinni „Gleymdi ofurbíllinn“ sem Kidston framleiddi og sjá má hér að neðan.

THE FORGOTTEN SUPERCAR from Kidston.TV on Vimeo.

Í myndinni segir Artioli meðal annars frá því hvernig spillt var fyrir fyrirtækinu af samkeppnisaðilum sem hann þó nefnir ekki á nafn. Samkvæmt Artioli fóru „sérfræðingarnir“, eins og hann kallar þá, beint í íhlutaframleiðendur Bugatti og hótuðu þeim að hætta viðskiptum við þá ef þeir létu ekki af viðskiptum sínum við Bugatti.

Skiptastjórn Bugatti Automobili seldi Lotus til malasíska fyrirtækisins Proton. Þýska fyrirtækið Dauer Racing keypti réttinn að 110EB ásamt partalagernum árið 1997 og framleiddi fimm eintök af EB110 SS til viðbótar. Verksmiðjan í Modena var seld húsgagnaframleiðanda sem fór á hausinn áður en hann flutti inn. Enginn hefur keypt verksmiðjuna aftur svo hún hefur staðið auð síðan Bugatti hætti þar framleiðslu.

Volkswagen tekur við keflinu

Volkswagen eignaðist Bugatti merkið 1998 og stofnaði Bugatti Automobiles S.A.S. í gamla heimabæ Bugatti, Molsheim. Giorgetto Giugiaro frá ItalDesign var fenginn til að framleiða fyrsta hugmyndabíl nýjasta fyrirtækisins með nafnið fræga og úr varð Bugatti EB118 sem frumsýndur var á bílasýningunni í París 1998. Í EB118 var 555 hestafla W18 vél. Næsti hugmyndabíll Bugatti var EB218 stallbakurinn en hann var frumsýndur á bílasýningunni í Genf 1999. Það var svo síðar það ár á bílasýningunni í Frankfurt að 18/3 Chiron hugmyndabíllinn var frumsýndur en hann átti síðar eftir að verða Bugatti Veyron.

Framleiðsla Veyron með 1001 hestafla 8.0L W16 vél hófst 2005 í verksmiðju Bugatti í Molsheim í Frakklandi. 23. febrúar 2015 var síðasti Veyroninn seldur en það var Grand Sport Vitesse sem fékk nafnið „La Finale“. Bugatti kynnti Chiron fyrr í ár en hann tekur við keflinu af Veyron í áframhaldandi sögu eins frægasta bílamerkis Frakklands.

Allar myndir greinarinnar eru af Wikimedia Commons.

DEILA Á