Rétt slapp við að verða fyrir mótorhjóli í Isle of Man TT

169

Isle of Man TT keppnin er í fullum gangi en henni líkur á morgun. Þegar hafa tveir látið lífið í keppninni í ár en minnstu mátti muna að sá þriðji bættist við þegar James Cowton féll af hjóli sínu á mánudag.

Cowton keppti í RL360º Quantum Superstock TT flokki á BMW 1000RR hjóli en féll af á miklum hraða í einni af fjölmörgum beygjum 60,725 km langrar Snaefell Mountain Course brautarinnar. Cowton rann á varnarvegg en kastaðist af honum og út á braut, vafinn inn í auglýsingaborða. Næsti maður á eftir Cowton var Horst Saiger á Kawasaki ZX-10R en snögg viðbrögð hans komu í veg fyrir að hann hafnaði á umkomulausum Cowton á brautinni.

Saiger náði að klára keppnina og endaði í 13. sæti. Cowton slapp vel en hann marðist aðeins við óhappið.

Frá fyrstu keppni Isle of Man TT árið 1907 til ársins 2015 hafa 141 keppendur látið lífið í keppninni eða á æfingum henni tengdri. Tveir hafa í ár, sem fyrr segir, bæst við tölu látinna en alls má rekja 248 dauðsföll til keppninnar.