Renault Clio fær andlitslyftingu

150

Fjögur ár eru liðin síðan Renault frumsýndi núverandi Clio á bílasýningunni í París og því kominn tími á andlitslyftingu fyrir módelið en smábíllinn var fyrsti bíll Renault til að notast við núverandi hönnunarmál franska framleiðandans.

Hvað útlit varðar fær Clio nú LED ljós með C-laga dagljósum að framan auk endurhannaðs grills og breyttrar svuntu að aftan. Fjórir litir bætast við úrvalið; Intense rauður, Titanium grár, Pearlscent hvítur og Iron blár. Þá bætast nýjar felgur við flóruna.

Efnisval í innréttingu hefur verið uppfært og Clio fær efni sem áður voru aðeins í dýrari módelum franska framleiðandans en öll áklæði eru ný og útliti plasts hefur verið gefinn sérstakur gaumur. Þrjú mismunandi margmiðlunarkerfi verða í boði í uppfærðum Clio eftir búnaðarstigi og Bose hljómflutningskerfi býðst í fyrsta sinn í Renault í þessum stærðarflokki.

Bakkskynjarar að aftan verða nú staðalbúnaður auk þess sem dýrari útfærslur fá skynjara að framan. Toppútgáfur fá svo Easy Park Assist kerfi Renault sem hjálpar ökumanni að leggja.

Ný vél bætist í vélaflóru Clio en 1.5L dCi fjögurra strokka turbo dieselvélin fæst nú í 110 hestafla útgáfu, 20 hestöflum kraftmeiri en fyrri topp dieselvél Clio. Þá býðst 120 hestafla TCe bensínvél Clio nú með sex gíra beinskiptingu.

Renault opnar pantanabækurnar nú í sumar og afhendingar uppfærðs Clio hefjast í september.

DEILA Á