Porsche hættir birtingu auglýsingar af virðingu við Muhammad Ali

81

Í kjölfar andláts fyrrum heimsmeistarans í hnefaleikum og mannvinarins Muhammad Ali hefur Porsche ákveðið að hætta birtingu auglýsingar 911 þar sem Ali var, ásamt stórmeistaranum Magnus Carlsen, í aðalhlutverki.

Talsmaður Porsche í Norður-Ameríku sagði í viðtali við AutoNews að Porsche hafi þótt „viðeigandi að hætta birtingu ‘Complete’ auglýsingarinnar og hætta umfjöllun á netinu þar sem auglýsingin kemur fyrir í ljósi aðstæðna og af virðingu fyrir stórkostlegum manni.“

Porsche studdist við tölvuteikningu auk tvífara Ali ásamt því að hafa samráð við fyrrum þjálfara hnefaleikagoðsins til að ná atriðum með Ali sem raunverulegustum en hann sjálfur gaf grænt ljós á gerð auglýsingarinnar. Í lýsingu auglýsingarinnar á YouTube segir Porsche:

Mikilfengleiki kemur að innan. Þegar þú setur sjálfan þig til höfuðs þín. Til bestu útgáfu þinnar. Með töfrum kvikmynda fáum við að sjá hvað myndi gerast ef Muhammad Ali færi í hringinn gegn sjálfum sér. Sem og ef Magnus Carlsen sæti andspænis sjálfum sér við taflborðið.

Muhammad Ali þjáðist af Parkinson í rúma þrjá áratugi og lést 3. júní síðastliðinn, 74 ára gamall, eftir stutta sjúkrahúslegu á sjúkrahúsi í Phoenix í Bandaríkjunum vegna ótilgreindra veikinda í öndunarfærum.