Peugeot sýnir nýjan 3008

309

Peugeot hefur birt myndir af nýjum 3008 jepplingi sínum en hann stækkar talsvert milli kynslóða og er nú ætlaður til höfuðs bíla á borð við Nissan Qashqai og Kia Sportage.

Þetta er fyrsta módel Peugeot sem státar af nýrri kynslóð i-Cockpit hönnunarmáls franska framleiðandans en í því felast ýmsar ráðstafanir sem gera eiga stjórnklefa 3008 að einum þeim besta í flokknum.

Í innréttingu bílsins eru nú skynvæddir takkar sem nema snertingu í stað smells, þægileg umhverfislýsing, 12,3″ stafrænn skjár í stað hefðbundins nálamælaborðs og annar 8″ snertiskjár fyrir margmiðlunarkerfi bílsins.

3008 er smíðaður á EMP2 undirvagn Groupe PSA sem Peugeot segir að létti bílinn um allt að 100 kg frá fyrri kynslóð. Nýr 3008 er 85 mm lengri og með 80 mm lengra hjólhaf en forverinn og býður því upp á meira pláss í innanrými bílsins. Skottið hefur einnig stækkað um 90 l, er nú 520 lítrar.

Kaupendur geta valið milli sex véla, tveggja turbo bensínvéla og fjögurra turbodieselvéla með sex gíra beinskiptingu eða sjálfskiptingu. Bensínvélarnar eru 130 hestafla 1.2L PureTech og 165 hestafla 1.6L THP. Dieselvélarnar telja 1.6L BlueHDi í 100 hestafla og 120 hestafla útgáfum og 2.0L BlueHDi sem skilar 150 og 180 hestöflum. Kraftmestu bensín- og dieselvélarnar verða aðeins í boði með sjálfskiptingu.

Aukabúnaður sem aðrir framleiðendur státa ekki af en verður í boði í nýjum 3008 er samanbrjótanlegt rafmagnshjól, hannað til að smellpassa í skottið og hlaðið af bílnum sjálfum með tengli í skotti.

Eins og búast má við í móðins jepplingi er ríkulegur öryggisbúnaður í nýjum 3008. Á meðal búnaðar eru sjálfvirk neyðarhemlun með fjarlægðarvara, sjálfvirk háuljós, virkur hraðastillir, blindpuntsviðvörun og bílastæðaaðstoð.

Nýr 3008 verður frumsýndur opinberlega á heimavelli á bílasýningunni í París í september og afhendingar hefjast síðla árs.

DEILA Á