Peugeot 205 T16 Group B rallíbíll á uppboði

144

Peugeot 205 Turbo 16 Evolution rallíbíll frá dögum Group B verður boðinn upp á uppboði RM Sotheby’s sem haldið verður í Mónakó um miðjan maí.

Sá tiltekni bíll, raðnúmer C11, mætti fyrst til keppni í Rally Monte Carlo 1985 með heimsmeistara ársins 1981, Ari Vatanen, undir stýri. Bíllinn var einn þriggja Peugeot T16 í keppninni og keppti meðal annars gegn Audi Sport Quattro S1 sem ekið var af Walter Rohrl.

Þrátt fyrir góða frammistöðu Audi vann Vatanen sjö af fyrstu tíu sérleiðum rallísins en fékk þá á sig átta mínútna víti sem færði hann niður í annað sæti, 4 mínútum og 41 sekúndu á eftir Rohrl. Vatanen lét þá hendur standa fram úr ermum og vann 14 af næstu 16 sérleiðum. Ekki aðeins vann hann upp muninn heldur náði 5 mínútna og 17 sekúndna forskoti. Alls vann C11 21 af 33 sérleiðum rallsins og Vatanen stóð uppi sem sigurvegari.

Vatanen vann einnig sigur í næstu keppni, Rally Svíþjóð, og fyrir þriðju keppni ársins, Rally Portúgal, var hann talinn sigurstranglegastur. Bilun í fjöðrunarkerfi og gallaður kasthjólsnemi neyddu Vatanen til að hætta keppni. C11 var lagt eftir þá keppni og annað eintak tók við keflinu.

Peugeot vann keppni bílsmiða þetta ár og Timo Salonen varð heimsmeistari ökumanna en líkt og landi hans, Vatanen, keppti hann fyrir Peugeot.

Það þykir afar óráðið hve hátt verð muni fást fyrir bílinn en það er ljóst að hér er ekki aðeins magnað keppnistæki á ferðinni heldur einstakur gripur úr einni svakalegustu keppnisseríu mótorsport sögunnar.

DEILA Á