Óuppgerður 1952 Jaguar XK120 hlöðufundur á uppboði

489

Jaguar XK kom fyrst fram á sjónarsviðið sem tilrauna- og sýningarbíll undir nýja XK vél Jaguar á bílasýningunni í London 1948 og þá sem roadster. Bíllinn hlaut slíkt lof á sýningunni að stofnandi og yfirhönnuður Jaguar, William Lyons, setti XK120 í framleiðslu.

Frá 1948 og fram til 1950 voru fyrstu 240 XK120 handmíðaðir á breyttan Jaguar Mark V undirvagn úr ályfirbyggingu með trérömmum úr aski til styrkingar. Talan í tegundarheitinu er 120 mílna hámarkshraðinn sem forgerð bílsins náði. 1949 árgerðin náði rúmlega 200 km hraða á klst og var á þeim tíma hraðskreiðasti raðsmíðaði bíll heims.

1950 var eftirspurnin eftir XK120 orðin slík að til að anna henni var ákveðið að notast við yfirbyggingu úr stáli því stáleiningar mátti forma með fergjun en léttmálmshluti varð að handsmíða. Hurðir, húdd og skottlok voru þó áfram úr áli en trégrindin vék fyrir stálgrind.

Vélin átti sinn þátt í því að gera Jaguar XK120 að þeim eftirsótta sportbíl sem hann varð. Hún er 6 strokka, upphaflega með 3.4L lítra slagrými, tvo ofanáliggjandi kambása og tvo SU-blöndunga og skilaði þannig 160 hestöflum. Vélina hönnuðu og þróðuðu þeir William M. Heynes, sem var yfirmaður tæknideildar Jaguar og Walter Hassan. Vélin átti eftir að vera í notkun hjá Jaguar í rétt tæpa fjóra áratugi í nokkrum útgáfum.

Reglulega eru XK bílar boðnir á uppboðum hér og þar og eru yfirleitt annað hvort í þörf fyrir algera uppgerð eða í fullkomnu ástandi. Stöku „hlöðufundur“ birtist en yfirleitt er þá um að ræða nothæfan undirvagn en vélarlausan. En þó gerist það að einstöku sinnum að XK skýtur upp kollinum sem fær menn til að klóra sér í hausnum.

Á laugardag verður 1952 Jaguar XK120 OTS (open two-seater) boðinn upp á uppboði Silverstone Auctions í Árósum í Danmörku. Bíllinn var seldur í Bandaríkjunum og var þar í eigu sama manns í 40 ár sem fór afar vel með bílinn og þjónustaði hann af kostgæfni. Bíllinn hins vegar var aldrei gerður upp.

Þegar eigandinn nálgaðist nírætt lét hann koma bílnum fyrir í geymslu með þann draum að gera hann upp í háellinni. Hann keypti sér handbækur bæði um bílinn og uppgerð á bílum almennt en komst þó aldrei lengra en að taka úr honum sætin þar sem hann lést skömmu síðar. Bíllinn sat svo í geymslu sinni í 20 ár, óhreyfður.

Byrnes Motor Trust Restoration eru staðsettir í Ástralíu og á Filippseyjum og er almennt taldir á meðal þeira bestu í heimi í uppgerð gamalla bíla. Fáir hafa meiri reynslu af uppgerð XK120 og því var bíllinn sendur til þeirra þegar hann fannst. Eftir að hafa skoðað verkefnið komust þeir þó að því að mögulega væri þetta fullkominn bíll til að gera ekki upp heldur varðveita. Nú þegar sumar fágunarkeppnir eru komnar með nýjan „varðveislu“ flokk fyrir bíla sem aldrei hafa verið gerðir upp fannst þeim eintakið, með sína sögu, kjörinn til þátttöku.

Bílnum hefur því aðeins verið komið í ökuhæft ástand en ekkert umfram það. Það verður því í höndum nýs eiganda hvort bíllinn fari í uppgerð eða verði varðveittur í núverandi ástandi.

Búist er við að Jaguarinn verði sleginn á 11,1 – 13,2 milljónir króna. Á sama uppboði verður 1974 Bjalla ekin aðeins 90 km boðin upp.

Eitt eintak Jaguar XK120 er til hérlendis en minnstu mátti muna að hann yrði eldi að bráð á Akureyri fyrir skemmstu.