Ökutækin í Tsjernobyl

2787

Í nótt voru 30 ár liðin frá kjarnorkuslysinu í Tsjernobyl kjarnorkuverinu við borgina Pripyat í Úkraínu sem þá tilheyrði Sovétríkjunum en slysið er talið versta kjarnorkuslys sögunnar.

Slysið átti sér stað að nóttu til þegar verið var að gera kerfisprófanir á ofni 4 en ofninn sprakk þegar kælikerfi ofnsins réði ekki við óvænta straumhnykki sem urðu við prófanirnar. Við það opnaðist kjarnakljúfurinn og gríðarlegur eldur braust út. Reykjarstrókurinn innihélt svo mikið magn geislavirkra efna að næstu daga átti geislavirknin eftir að mælast í andrúmslofti um nær alla Evrópu.

Strax um nóttina var slökkvilið kallað út til að berjast við eldinn. Morguninn eftir hófu þyrlur að varpa meira en fimm þúsund tonnum af sandi, blýi, leir og öðrum efnum á kjarnakljúfinn til að reyna að slökkva bálið og draga úr losun geislavirkra efna í andrúmsloftið. Herafli var kallaður út til að aðstoða við björgunarstörf og flytja fólk út af svæðinu en rýma þurfti Pripyat og nærliggjandi héruð og bæi eftir slysið þar sem geislavirkni var það mikil að hún ógnaði heilsu og lífi fólks. Landssvæði í 30 km radíus umhverfis kjarnorkuverið var rýmt og er enn þann dag í dag bannsvæði.

Alls létu 31 lífið beint af völdum slyssins, aðallega slökkvilismenn, en talið er að rúmlega 4.000 dauðsföll megi rekja til þess.

Ökutækin og þyrlurnar sem notuð voru við björgunarstörf höfðu safnað í sig óhemju magni af geislavirkni og máttu ekki yfirgefa bannsvæðið. Tækin sem voru fyrst á vettvang nóttina örlagaríku voru fljótlega grafin í jörðu enda sjálf orðin hættuleg heilsu björgunarmanna vegna mengunarmettunar. Þegar björgunarstörfum var lokið var öðrum tækjum sem að starfinu komu, sem og ökutækjum almennnings af bannsvæðinu, safnað saman á gríðarstóra tækjakirkjugarða til að bíða lokalausnar.

Mörgum þeirra var þó aldrei fargað heldur standa enn og grotna undir berum himni. Stærsti tækjakirkjugarðurinn er í Rassorva, 25 km suðvestur af Tsjernobyl. Sum tækin þar gefa enn frá sér geislavirkni sem mælist allt að 30 röntgen/klst en það er u.þ.b. þriðjungur þeirrar geislavirkni sem telst banvænn skammtur við langvarandi veru.

Búið er að taka vélar og víra úr mörgum tækjanna, sem flest standa með húddið opið, þrátt fyrir að það sé stranglega bannað og stórhættulegt vegna kjarnorkumengunar.

Tækin í Tsjernobyl standa nú sem þögul minnismerki um versta kjarnorkuslys sögunnar.

Heimildir: 1, 2, 3, 4, 5

DEILA Á