Nýr Polestar pakki gerir XC90 T8 að öflugasta Volvo frá upphafi

187

Nýr Polestar breytingapakki býðst nú fyrir Volvo XC90 T8 sem eykur afköst 2.0L fjörgurra strokka tvinnvélarinnar upp í 421 hestöfl og 680 Nm sem gerir sportjeppann að öflugasta fólksbíl Volvo frá upphafi.

Aflaukningin nemur 14 hestöflum og togið eykst um 40 Nm en það flýtir hröðun bílsins í 100 km hraða um 0,1 sekúndu, niður í 5,5 sek. Eyðsla og rafdrægni líða ekki fyrir aukið afl en XC90 eyðir sem fyrr 2,1 l/100km og dregur 43 km fyrir rafmagni einu saman sem áður.

Fyrir utan aflaukningu bætir Polestar pakkinn aflrásina með því að skerpa inngjafarsvörun sem og hraða og nákvæmni gírskiptinga sem hvoru tveggja verður til að auka akstursánægju að sögn Volvo. Einnig er nýr fítus í skiptingu bílsins sem varnar því að hún skipti um þrep í miðri, krappri beygju en slíkt spillir jafnvægi bílsins.

Aðeins er vika síðan Volvo kynnti Polestar pakka sem skerpir S90 og V90 bíla sænska framleiðandans og Niels Möller, yfirmaður hjá Polestar, er ánægður með hraðann:

…við höldum áfram með því að bjóða pakka okkar fyrir hina spennandi og þróuðu XC90 T8 tvinnvél. Hann veitir kaupendum sem vilja aukna akstursánægju XC90 bíls síns aðgengilega og aðlaðandi aflaukningu.

Breytingapakkar Polestar eru hannaðir í fullu samráði við Volvo enda Polestar sportarmur sænska framleiðandans. Polestar pakkinn fyrir XC90 T8 fer í sölu frá og með deginum í dag.

DEILA Á