Nýir Audi S4 og S4 Avant eru 354 hestöfl

128

Þar til Audi kynnir nýjan RS4 eru S4 og S4 Avant málið viljirðu aflmikla útgáfu A4 en 2017 útgáfurnar skila 354 hestöflum.

3.0L V6 turbo vél 2017 S4 og S4 Avant togar 500 Nm strax við 1.370 sn./mín. Alls er vélin nú 21 hestafli og 60 Nm aflmeiri en í fyrri kynslóð bílanna. Audi segir vélina eyða aðeins 7,3 lítrum á hundraði og losa 166 g/km af CO2. 0-100 km hraða nær S4 á 4,7 sekúndum en skutbíllinn er 0,2 sek. lengur að ná markinu.

Afli er miðlað til beggja ása gegnum átta þrepa sjálfskiptingu sem leyfir fríhjólun til að lækka eyðslu en Quattro fjórhjóladrifið er með sjálflæsandi mismunadrif, togstýringu auk þess sem sportmismunadrif að aftan er valkostur. Við venjulegan akstur er 60% af aflinu sent til afturhjóla en 40% til framhjóla. Kerfið getur sent allt að 85% aflsins til framhjóla eða 70% til afturhjóla gerist þess þörf.

Five-link fjöðrun er bæði að framan og aftan og Audi drive select aksturseiginleikastilling bílanna býður ökumanni fimm akstursstillingar til að velja á milli sem breyta stillingum vélar, stýris, skiptingar, sportmismunadrifinu og fjöðrun bílsins í takt við aðstæður.

S4 og S4 Avant eru 23 mm lægri en hefðbundinn A4. Sex stimpla bremsudælur auk 350 mm diska að framan tryggja afbragðs hemlunarkraft og 18″ felgur eru staðalbúnaður. S4 stallbakurinn er 1.630 kg en skutbíllinn 1.675 kg en báðir eru 75 kg léttari en forverinn.

Sjá einnig: Audi frumsýnir nýja A5 og S5

DEILA Á