Nissan Navara og Mitsubishi L-200 munu deila undirvagni

188

Nú þegar Nissan er orðinn stærsti hluthafi Mitsubishi Motors eru framleiðendurnir þegar byrjaðir að leggja drög að framtíðaráformum fyrir bíla sína og fyrsta skrefið verður að líkindum tekið með pallbíla fyrirtækjanna.

Ekki stendur þó til að smíða eins bíla með sitt hvoru merkinu heldur eru áform uppi um að Navara og L-200 deili undirvagni en verði svo algerlega sitthvor bíllinn þegar kemur að yfirbyggingu að því er CarAdvice hefur eftir Carlos Ghosn, forstjóra Nissan:

[Það er] mjög líklegt að við munum nota sama undirvagn en við ætlum að þróa bílana á ólíkan hátt vegna þess að viðskiptavinirnir eru ekki þeir sömu. En í stað þess að nota sitt hvorn undirvagninn getum við notast við þann sama en bílarnir verða sitt hvor varan. Þróunarkostnaður og útsöluverð verður því lægra. Sameiginlegur undirvagn, sitthvor þróunin.

Það verður nokkurra ára bið eftir útkomunni en í fyrra komu á markað uppfærðar útgáfur beggja bílanna.