Nissan hefur framleitt 50.000 Leaf í Evrópu

122

Nú þremur árum eftir að Nissan hóf framleiðslu rafbíla í Evrópu hefur 50.000. Nissan Leaf bíllinn rúllað af færibandinu.

Leaf fyrir Evrópumarkað eru framleiddir í verksmiðju Nissan í Sunderland í Bretlandi. Nissan er fyrsti bílframleiðandinn til að framleiða rafbíl í Evrópu sem notast við rafhlöður sem einnig eru framleiddar í Evrópu í þessu magni. Renault Zoe var á undan upp í 50.000 eintök en rafhlöðurnar í hann eru framleiddar í Suður-Kóreu.

Bíllinn sem markaði áfangann var silfurlitaður Leaf í Tekna útfærslu en hann verður sendur til Frakklands þar sem hann fær nýjan eiganda. Leaf bílar smíðaðir í Sunderland eru fluttir út til 20 landa í Vestur-Evrópu, þar með talið til Íslands, auk Argentínu, Ísraels og Taívan.

Frá því Leaf kom á markað fyrir fimm árum hefur bíllinn selst í rétt tæplega 220.000 eintökum á heimsvísu. Nissan kynnti svo annan rafbíl sinn til sögunnar í Evrópu 2014 þegar sendibíllinn e-NV200 kom á markað en hann er framleiddur í Barcelona á Spáni og notast einnig við rafhlöður framleiddar í Evrópu.

Japanski bílframleiðandinn býst ekki við að samdráttur verði í framleiðslunni þar sem nýr Nissan Leaf sem kynntur var í ár er með 26% lengri drægni, um 250 km, en forverinn sem hingað til hefur gengið svo vel.

DEILA Á