Nikola Zero er 520 hestafla rafbuggybíll

278

Nikola Motor Company ætlar sér mikinn á markaði rafknúinna farartækja en áður hefur verið fjallað um One flutningabíl fyrirtækisins hér á Mótornum. Hugmynd Nikola Motor að rafknúnum 520 hestafla buggýbíl er vægast sagt áhugaverð.

Nikola Zero er fjögurra manna buggýbíll, knúinn fjórum 155 hestafla rafmótorum, einum við hvert hjól. Samanlagt afl þeirra er 520 hestöfl og togið er 620 Nm. Aflið dugar 862 kg buggýbílnum til að ná 100 km hraða á um þremur sekúndum.

Tækni til torfæra

Rafmótorarnir og gírkassinn eru IP67 vatnsheldir og þola 1 m dýpi. Rafhlaða Nikola Zero er 50 kWh, umtalsvert stærri en í mörgum rafknúnum fólksbílum í dag, og dugar buggýbílnum til 160-260 km aksturs. Engin belti eru í vélbúnaði Zero heldur er notast við gíra en það var krafa forstjóra Nikola Motor við hönnun bílsins.

Á Zero eru fjórhjólabeygjur en hann getur beygt um 10° að aftan á lágum hraða og um 5° á allt að 32 km/klst. Á hærri hraða læsast afturdekkin í stað og beygja ekki. Ökumaður getur kveikt eða slökkt á afturbeygjunum með takka.

Hjólhaf bílsins er 3 m, fjörðunarferill Fox 3.0 Internal Bypass höggdeyfanna er 20″ bæði að framan og aftan og hæð undir lægsta punkt er 37 cm. 32″ dekk eru undir Zero og 14″ diskabremsur eru hringinn.

Vel búinn

Á þaki buggýbílsins eru 300 watta sólarsellur og í bílnum eru LED ljós hringinn, tvö 3.500 lbs spil eru að framan og aftan, 110V og 12V tenglar, 4G LTE internet og Wi-Fi, tveir 7″ upplýsingaskjáir og 10″ margmiðlunarskjár sem sýnt getur m.a. frá myndavélum sem eru á bílnum framan- og aftanverðum auk fjögurra USB tengja. Körfustólar Zero eru frá Beard og eru með fjögurra punkta beltum. Einnig er loftpressa í bílnum til að pumpa í dekk.

Bandaríska sprotafyrirtækið er byrjað að taka við forpöntunum í Zero en verð buggýbílsins er 42.000 dollarar, um 5,2 milljónir króna og ábyrgð er tvö ár. Fyrstu 5.000 sem forpanta fá 5.000 dollara afslátt og fellur verðið þá niður í rétt tæpar 4,6 milljónir króna.

Sjá einnig: Nikola Motor vill rafvæða flutningabílaflotann

DEILA Á