Mismunandi þjónustuhlé mismunandi akstursíþrótta

136

Það er áhugavert að bera saman mismunandi þjónustuhlé mismunandi akstursíþrótta en það er nákvæmlega það sem er gert í myndbandinu að neðan. Þjónustuhlé taka allt frá rétt rúmum tveim sekúndum í Formula 1 til jafnvel yfir heillar mínútu í þolaksturkeppnum þar sem skipta þarf um ökumann og dekk auk þess að fylla á eldsneyti.

Fyrst er sýnt þjónustuhlé í Formula 1 þar sem 14+ manns skipta um dekk undir bílnum auk þess að gera breytingar á vindkljúfum ef með þarf en bensínáfyllingar hafa verið bannaðar frá og með keppnistímabilinu 2010. Afbragðs þjónustuhlé í F1 tekur um 2,3 sekúndur. Ólíkt flestum mótorsportkeppnum leyfir F1 aðeins eitt teymi á lið svo lið neyðast til að skiptast á að þjónusta bíla sína tvo.

Næst í röðinni er þjónustuhlé í bandarísku Indycar mótaröðinni en í henni er, líkt og í F1, keppt á „open-wheel“ bílum. 6 manna teymi skiptir um dekk og setur eldsneyti á bílinn í þjónustuhléi sem tekur að jafnaði 6-10 sekúndur.

Formula E þjónustuhlé tekur talsvert lengri tíma en í F1 en í hléinu þarf að skipta um bíl þar sem rafhleðsla tekur mun lengri tíma en bensínáfylling auk þess sem rafhlöðutækni er enn ekki komin nógu langt til að koma kappakstursbíl í gegnum heila keppni. Í þjónustuhléi Formula E aðstoða tveir menn ökumann við að skipta um bíl en umsjónarmaður á vegum FIA þarf að taka festingu sætisbelta ökumanns út áður en hann má aka aftur af stað.

Í Nascar skiptir 6 manna teymi um dekk, hvert með fimm felguróm auk þess sem bensínáfylling er heimiluð. Venjubundin þjónusthlé fara ekki fram í hefðbundnum pitti heldur á rein sem aðskilin er frá bílskúrssvæðinu með vegg sem aðeins 6 manna teymið má fara yfir og hafa með sér einn tjakk sem lyftir bílnum upp á hliðum, tvo loftlykla og tvær bensínkönnur. Einn mannar tjakkinn og annar bensínið en tveir vinna á hvoru dekki þeirrar hliðar sem er á lofti. Þjónustuhlé taka mismunandi tíma í Nascar eftir þörfum en skipti á fjórum dekkjum auk bensínáfyllingar taka 12-16 sekúnndur en 5-7 sek. ef aðeins þarf að skipta um tvö dekk. Þá er alvanalegt í Nascar að bílar þurfi lögg af bensíni til að ljúka keppni og þá er stoppað í 2-3 sek. í svokölluðu „Splash and go“ hléi.

Í þolaksturskeppnum FIA, World Endurance Championship, eru fjögurra manna teymi þjónustumanna þar sem tveir aðstoða ökumenn við ökumannsskipti en hinir tveir sinna bílnum og skipta um dekk og fylla á bensín. Þjónustuhlé í WEC keppnum þar sem ökumannsskipti eiga sér stað taka vanalega 40-50 sekúndur en geta teygt sig vel yfir mínútuna ef bíllinn þarfnast t.d. bremsuklossaskipta.