Lögreglan í Dubai gerði bíla upptæka eftir ólöglegan kappakstur

450

Lögreglan í Dubai hefur gert 81 bíl upptækan í rassíu eftir að eigendur urðu uppvísir að því að nota þá í ólöglegum kappökstrum á löngum og beinum þjóðvegum furstadæmisins.

Lögreglustjóri lögreglunnar í Dubai, Khamis Al Mazinah, sagði í samtali við BBC að umferðarlögreglan hafi náð ökumönnum sem stundað hafi glæfraakstur og gert alls 81 bíl upptækan en hann sagði þó ekki hvenær né á hve löngu tímabili. Mazinah lét það þó fylgja sögu að bílarnir væru notaðir eða hefðu verið í smíðum fyrir ólöglegan götukappakstur og að sumir þeirra hefðu reynt að flýja lögreglu á allt að 315 km/klst.

Það er hins vegar ekkert grín að stinga lögregluna í Dubai af en líkt og í furstadæminu eru aflmiklir sport- og ofurbílar vinsælir hjá embættinu. Þannig er lögum haldið uppi á bílum á borð við Bugatti Veyron, Lamborghini Aventador LP 700-4, Ferrari FF, Bentley Continental GT, Audi R8 og Mercedes-Benz SL63 AMG til að nefna nokkra.

Ökumenn eiga von á 100.000 dírama sekt, um 3,4 milljónir króna auk þess sem eigendur skulu greiða 50.000 dírama í sekt, um 1,7 milljónir. Athæfið mun því kosta ökumann sem tekinn var á bíl sínum um 5,1 milljón króna. Bílar eigenda sem ekki greiða sekt sína innan þriggja mánaða verða boðnir upp.

DEILA Á