Lego Porsche 911 GT3 RS

169

Danska kubbafyrirtækið Lego setur senn á markað módel í hlutfallinu 1:8 af Porsche 911 GT3 RS. Módelið er búið til úr Technics kubbum framleiðandans og er afar veglegt og vandað enda um sérútgáfu að ræða.

Í myndbandinu er módelið sýnt í hugmyndapakkningum sem þó verða nærri þeim sem það mun koma í þegar módelið fer í sölu 1. júní. Leiðarvísirinn er óvenjulegur að því leiti að hann er enginn smá doðrantur og í honum má finna ýmiskonar fróðleik um raunverulega smíði 911 GT3 RS í verksmiðjum Porsche þar sem sýnt er frá smíði bílsins samhliða því sem maður kubbar sömu parta. Módelið kemur í fjórum pökkum og hver inniheldur kubba sem nota þarf til að smíða ákveðna parta bílsins.

Fyrsti pakkinn inniheldur kubbana sem þarf til að smíða undirvagn módelsins en hann býr yfir mörgum eiginleikum. Á módelinu eru felgur sem eru sérsteyptar fyrir þetta módel. Einnig er eftirlíking tvíkúplingadrifinnar PDK skiptingar Porsche auk þess sem hægt er að setja bílinn í Drive og Reverse, þó það reyndar geri ekkert. Á módelinu eru gular bremsudælur líkt og á bílnum auk þess sem höggdeyfar eru rauðir en GT bílar Porsche hafa ávalt rauða höggdeyfa.

Lego steypti þó nokkra nýja kubba spes fyrir þetta módel og einn þeirra er sérstök númeraplata með leysergröfnum númerum en hvert og eitt módel fær sitt sérstaka númer sem staðsetja á í hanskahólfi bílsins sem er opnanlegt. Hurðir, húdd og skott eru einnig opnanleg auk þess sem stilla má vindkljúf á skotti.

Módelið var unnið í samvinnu með Porsche og eru þeir afar ánægðir með afraksturinn. Lego Porsche 911 GT3 RS er 17 cm hár, 57 cm langur og 25 cm breiður og búinn til úr yfir 2.700 kubbum. Módelið mun kosta 2.599 kr. danskar, um 49.000 íslenskar, þegar það fer í sölu í sumar.

DEILA Á