Lancia 037 Stradale á uppboði

265

1980 varð reglubreyting FIA til þess að framleiðendum dugði að framleiða fremur takmarkað magn 200 bíla fyrir almenna sölu til að standast inntökukröfur (e. homologation) í keppnum á vegum Alþjóða aksturssambandsins, FIA.

Á þessum árum keppti Lancia í WRC rallýi FIA og þegar Group B varð til 1983 mættu Lancia með Rally 037 bíl sinn sem hafði staðið sig vel í undanförum Group B. Það var pressa á Lancia en Stratos bíll þeirra, sem Rally 037 leysti af hólmi, þótti afbragðsgóður. Rally 037 olli ekki vonbrigðum og á honum vann Lancia keppni bílsmiða fyrsta ár Group B, 1983. Rally 037 er að auki síðasti afturdrifsbíllinn til að ná titli í WRC en þróun bílsins var sett á herðar Abarth sem kaus að hafa bílinn afturdrifinn til að spara sér þyngd fjórhjóladrifskerfis.

Götuútgáfa 037, Stradale, var aðeins smíðaður í 207 eintökum árin 1982-83, rétt svo nógu mörgum til að standast kröfur FIA, sem gerir bílinn fremur sjaldgæfan. Abarth vél bílsins var 1.995 rúmsentimetra L4 16v DOHC með blásara og Bosch Kugelfisher innspýtingu. Afköst vélarinnar voru 205 hestöfl, 80 færri en Rally 037, en þau dugðu til koma 037 Stradale í 100 km hraða á tæpum sex sekúndum með hámarshraða yfir 220 km/klst.

Yfirbygging bílsins, hönnuð og smíðuð af Pininfarina, er að hluta smíðuð úr kevlarstyrktu trefjagleri en bíllinn vegur aðeins 1.169 kg sem þó var 200 kg þyngri en Rally 037. Tvöföld klafafjöðrun er á öllum hjólum sem og stærðar Brembo diskabremsur. Í bílnum eru tveir 35 lítra eldsneytistankar og ZF fimm gíra beinskipting.

Öll 207 eintök 037 Stradale voru rauðir að lit en sumir fengu svartmattan afturvæng en sumir engan afturvæng til að auka útsýni að aftan. Að innan fengu Stradale körfustóla með tauáklæði auk helstu nauðsynja en hljóðeinangrun taldist ekki til þeirra.

Eintakið sem nú er á uppboði og fer undir hamarinn hjá breska RM Sotheby’s uppboðshúsinu á uppboði í Mónakó á morgun er 1982 módel, bíll númer 063. Bíllinn er ekin 32.412 km frá upphafi og hefur alltaf verið þjónustaður af rallýsérfræðingum Lancia, MRT by Nocentini í Mílanó. Aðeins er búið að aka honum um 300 km frá síðustu skoðun en bíllinn er upprunalegur að öllu leyti og hefur verið í eigu núverandi eiganda í tvö ár.

Búist er við að bíllinn verði sleginn á 335.000-355.000 evrur, 46,7-49,5 milljónir króna.