Klifurdans Ari Vatanen

1225

Franski bílframleiðandinn Peugeot stofnaði rallýlið árið 1981. Peugeot réði Jean Todt sem yfirmann liðsins og liðið fékk nafnið Peugeot Talbot Sport. Stefnan var sett á heimsmeistarakeppni WRC, Group B. Fyrst var keppt í Group B flokknum 1982 en Peugeot Talbot Sport hóf ekki þáttöku fyrr en er talsvert var liðið á keppnistímabilið 1984. Ökumenn voru Finninn Ari Vatanen og Frakkinn Jean-Pierre Nicolas.

Ari Vatanen og Terry Harryman í Rally Ítalía 1984.
Ari Vatanen og Terry Harryman í Rally Ítalía 1984.

Samkeppnin þegar Peugeot mætti loks til leiks var ekki af lakara taginu en Audi tefldi fram hinum goðsagnakennda Quattro bíl sínum, Lancia keppti á 037 Evo og landar Peugeot, Renault, höfðu getið sér gott orð með 5 Turbo keppnisbílnum. Það var því enginn hægðarleikur að olnboga sig fram á meðal þeirra bestu.

En bíll Peugeot, 205 Turbo 16, var frábær. Strax varð ljóst að þar var á ferð einn allra besti rallbíll sögunnar. Vatanen sigraði þrjár af fjórum síðustu keppnum ársins og Peugeot hafnaði í þriðja sæti bílsmiða á sínu fyrsta keppnistímabili, og það án þess að taka þátt í því öllu.

1985 keppnistímabilið var fyrsta heila keppnistímabil Peugeot Talbot Sport í Group B. Finninn Timo Salonen kom inn sem ökumaður í stað Nicolas. Ari Vatanen vann fyrstu tvær keppnirnar, Rally Monte Carlo og Rally Svíþjóð og Salonen vann þriðja mótið, Rally Portúgal.

Vatanen hafði heldur hægt um sig næstu mót en náði í annað sæti í sjöunda rallýi keppnistímabilsins, Rally Nýja Sjáland. Í næsta rallýi, Rally Argentína dundi hins vegar ógæfan yfir. Á löngum beinum kafla, í efsta gír á rúmlega 200km hraða, rak Vatanen bíl sinn í sem varð til þess að bíllinn endastakkst yfir sig. Ytra byrði bílsins tættist í sundur en veltigrindin hélt. Vatanen og aðstoðarökumaður hans, Terry Harryman, voru í snarhasti fluttir með þyrlu á sjúkrahús. Meiðsli Vatanen voru alvarleg og var hann um tíma talinn í lífshættu en hann náði fullum bata á 18 mánuðum.

Timo Salonen í Rally Portúgal 1985.
Timo Salonen í Rally Portúgal 1985.

Með Vatanen úr leik treysti Peugeot á Salonen til að ljúka keppnistímabilinu en þegar þarna var komið við sögu var Salonen í fyrsta sæti í stigakeppni ökumanna. Salonen hafði þegar unnið tvö röll í röð, mót 6 og 7, Rally Grikkland og Nýja Sjáland. Hann sigraði svo Rally Argentína og næsta mót einnig, Rally Finnland og hafði þar með unnið fjögur mót í röð. Síðustu stigin vann hann sér inn í þriðja síðasta rallýi keppnistímabilsins, Rally Ítalía en þar endaði hann annar. Frammistaða Salonen dugði til og hann varð heimsmeistari ökumanna og Peugeot heimsmeistari bílsmiða á sínu fyrsta heila keppnistímabili.

En slys Vatanen var ekki eina alvarlega slysið keppnistímabilið 1985. Á fjórðu sérleið fimmta móts ársins, Rally Frakkland sem fram fór á Korsíku, fór ökumaður Lancia, Attilio Bettega, út úr braut og hafnaði á tré á miklum hraða. Bettega lést samstundis en aðstoðarökumaður hans, Maurizio Perissinot, slapp ómeiddur. Við slysið vöknuðu spurningar um hve öruggt Group B rallý væri í raun og veru. Spurningar sem slys Vatanen aðeins þrem mótum síðar hjálpaði ekki til við að svara.

Keppnisbílar Peugeot, Audi og Lancia í Group B 1986.
Keppnisbílar Peugeot, Audi og Lancia í Group B 1986.

Peugeot fengu annan Finna, Juha Kankkunen, til að fylla í skarð Vatanen fyrir 1986 keppnistímabilið. Enn einn Finninn, Henri Toivonen, sem ók fyrir Lancia, sem nú kepptu á Delta S4 bíl sínum, vann fyrsta mótið, Rally Monte Carlo, með Salonen í öðru sæti. Í móti tvö, Rally Svíþjóð, sigraði Kankkunen en annar ökumaður Lancia, Finninn Markku Alén, náði öðru. Það var því allt útlit fyrir gríðarharða baráttu milli Peugeot og Lancia.

Í þriðja rallýi ársins, Rally Portúgal, gerðist skelfilegt atvik. Joaquim Santos, ökumaður Ford, missti stjórn á RS200 bíl sínum og hafnaði í áhorfendaþvögu með þeim afleiðingum að þrír áhorfendur létu lífið og rúmlega 30 slösuðust. Öll lið bílframleiðenda drógu sig úr keppninni.

Á myndinni sést hvar Toivonen og aðstoðarökumaður hans, Cresto, höfnuðu utan vegar í Rally Frakkland.
Á myndinni sést hvar Toivonen og aðstoðarökumaður hans, Cresto, höfnuðu utan vegar í Rally Frakkland.

Líkt og árið áður var Rally Frakkland fimmta mót keppnisdagatalsins og að venju fór það fram á Korsíku. Og aftur varð alvarlegt slys í Rally Frakklandi. Að þessu sinni var það ökumaður Lancia, Henri Toivonen, sem átti hlut að máli. Á afviknum stað brautarinnar missti Toivonen stjórn á bíl sínum svo hann fór út af veginum og flaug fram af syllu og lenti á þakinu. Við lendinguna rifnaði álbensíntankur undir sæti Toivonen og út braust mikið eldbál. Hvorki Toivonen né aðstoðarökumaður hans, Sergio Cresto, komust lífs af úr slysinu.

Þetta slys fyllti mælinn. Alþjóða aksturssambandið, FIA, gaf það út í kjölfar Rally Frakkland, sem Frakkinn Bruno Saby á Peugeot sigraði, að Group B bílar fengju ekki að keppa 1987 og að frekari þróun þeirra skyldi hætt. Audi og Ford drógu sig strax úr keppni í Group B en önnur lið héldu áfram út keppnistímabilið. Jean Todt, liðsstjóri Peugeot Talbot Sport, varð æfareiður FIA og kærði ákvörðunina en tapaði málinu.

Eftir allt sem þarna hafði gengið á var botninn svolítið úr Group B keppnistímabilinu. Audi voru hættir og Lancia liðið laskað og í áfalli svo Peugeot átti sviðið næstu mót enda fór það svo að liðið vann næstu þrjú rallý. Lancia fór að slá aftur frá sér í síðustu mótum tímabilsins en það var of lítið of seint. Peugeot vann tvöfalt annað árið í röð með Juha Kankkunen sem síðasta heimsmeistara Group B.

Peugeot hafði eytt miklum fjármunum í þróun bíls síns og Jean Todt vildi ekki taka það skref niður á við, að honum fannst, sem FIA hafði ákveðið að taka með rallýkeppni sína, WRC. Fókusinn var því færður á þolrallý og einstök mót fyrir árið 1987.

Ari Vatanen og Juha Kankkunen
Ari Vatanen og Juha Kankkunen.

Peugeot Talbot Sport hélt ökumönnum sínum, þeim Ari Vatanen og Juha Kankkunen og skráði 205 bíl sinn til leiks í tveim heimsfrægum keppnum 1987; Paris-Dakar þolrallýið og Pikes Peak brekkuklifurkeppnina. Timo Salonen hélt sig hins vegar við WRC og gekk til liðs við Mazda.

1987 markaði tímamót í sögu Paris-Dakar keppninnar en Peugeot Talbot Sport náði strax árangri í bílaflokki þolrallýsins þegar Ari Vatanen sigraði. Pikes Peak keppnina vann liðið þó ekki heldur máttu lúta í lægra gras fyrir fyrrum keppinautum úr Group B, Audi en Audi hafði unnið Pikes Peak á Quattro keppnisbíl sínum fimm ár samfleytt og hafði nú unnið sex sinnum í röð.

Vinna var hafin við nýjan keppnisbíl Peugeot liðsins. Að þessu sinni var skelin 405 coupé. 205 bíllinn átti þó eftir að láta ljós sitt skína einu sinni enn, í 1988 Paris-Dakar. Aldrei áður höfðu fleiri keppendur skráð sig til leiks en 603 tóku þátt. Keppnina í bílaflokki leiddi Ari Vatanen framan af en eftir að keppnisbíl hans var stolið af þjónustusvæði í Bakamo, höfuðborg Malí, var hann dæmdur úr leik. Bíllinn fannst fljótt en ákvörðunin stóð. Það kom þó ekki að sök fyrir liðið því liðsfélagi Vatanen, Kankkunen, sigraði þolaksturinn.

Peugeot 405 Turbo 16 í Pikes Peak útfærslu.
Peugeot 405 Turbo 16 í Pikes Peak útfærslu.

Þegar kom að Pikes Peak þetta sama ár hafði Peugeot Talbot Sport skipti yfir í Peugeot 405 Turbo 16 bílinn. Sá var búinn ýmsum nýjungum sem aldrei áður höfðu sést í rallbíl, svo sem fjórhjólastýringu. Vélin sat rétt fyrir framan hægra afturhjól og forþjappan var vinstramegin svo hún drægi sem minnstan hita frá vélinni. Bíllinn hafði afbragðsgóða þyngdardreifingu, vóg aðeins um 900kg, var rúm 600 hestöfl og náði 200km hraða á innan við 10 sekúndum. Peugeot hafði fjármagnað þróun bílsins um rúmlega milljón dollara.

Liðið ætlaði sér mikið í Pikes Peak. Peugeot hafði ráðið leikstjórann Jean Louis Mourey til að gera stuttmynd um akstur liðsins í keppninni sem framleiðandinn hugsaði sér að nýta í markaðsskyni. Ari Vatanen skyldi skila bílnum upp fjallið. Og það gerði hann. Vatanen setti nýtt keppnismet, 10:47.220. Tími sem myndi fyllilega sóma sér í keppni enn þann dag í dag en nú er brautin öll malbikuð en var öll malarvegur 1988. Stuttmyndina má sjá í spilaranum hér að neðan en Peugeot lét endurvinna myndina í HD þegar Loeb sigraði 2013 en myndin vann til fernra verðlauna á stuttmyndahátíðum 1990.

1989 keppti Bandaríkjamaðurinn Robby Unser fyrir hönd Peugeot í Pikes Peak og, líkt og Vatanen árið áður, hafði hann sigur. Tími Unser var þó rúmri sekúndu lakari en Vatanen. Peugeot Talbot Sport tók ekki þátt í Pikes Peak 1990.

Núgildandi met Pikes Peak er 8:13.878 sett af Sebastien Loeb 2013 á Peugeot 208 T16 Pikes Peak.

Peugeot 405 T16 í Paris-Dakar útfærslu.
Peugeot 405 T16 í Paris-Dakar útfærslu.

Áfram hélt einokun Peugeot 1989 og ’90 í Paris-Dakar en nú á 405 bílnum. Ari Vatanen sigraði bæði árin ásamt sænska aðstoðarökumanninum Bruno Berglund. Vatanen á met í Paris-Dakar sem stendur enn í dag en enginn ökumaður hefur sigrað fleiri sérleiðir í bílaflokki þolrallsins en hann, 50 alls. Næstur er Stéphane Peterhansel með 35 sigra en hann er einnig með 33 sérleiðir sigraðar í mótorhjólaflokki.

Síðasta ár Peugeot í rallýi var 1990. Frá og með 1991 sneri Peugeot Talbot Racing sér að WSC (World Sportscars Championship) en 1988 hafði liðið hafið þróun 905 bílsins í þeim tilgangi. Liðið hafnaði í öðru sæti í keppni bílsmiða á sínu fyrsta keppnistímabili og gjörsigraði annað tímabil sitt þar sem liðið vann allar keppnir, þar með talið Le Mans, nema eina. Keppnistímabilin urðu þó aðeins tvö þar sem FIA taldi ekki grundvöll fyrir áframhaldandi keppni vegna fárra keppenda og takmarkaðs áhuga almennings. Keppni í WSC var því hætt.

Systurfyrirtæki Peugeot, Citroën, tók við keflinu af Peugeot í rallý strax árið 1991. Ari Vatanen færði sig um set og var ökumaður Citroën í Paris-Dakar það ár enda rallökumaður að upplagi. Vatanen vann sinn þriðja sigur í röð og fjórða á fimm árum. Citroën hafði fengið tækni Peugeot 405 T16 bílsins í arf og byggði Citroën ZX rallýbíl sinn á honum. Citroën sigraði Paris-Dakar einnig 1994, ’95 og ’96.

Hafandi þennan bakgrunn skyldi magnað gengi Citroën og Sebastien Loeb árin 2004-’12, þar sem hann vann WRC níu ár í röð og Citroën keppni bílsmiða sjö sinnum, engum koma á óvart. Hefðin, þekkingin og sagan var einfaldlega með þeim í liði.