Klessukeyrði fimm daga gamlan Model X og kenndi bílnum um

505

Eftir að hafa átt Tesla Model X P90D bíl sinn í fimm daga klessukeyrði eigandinn bílinn þegar hann var að skutla frúnni í snyrtingu. Eigandinn skrifaði um málið á TeslaForum og sagði farir sínar ekki sléttar.

Eigandinn, sem skrifar undir notandanafninu Puzant, kennir bílnum um og segir að „Tesla ætti að stöðva afhendingar bílsins og rannsaka orsök þessa alvarlega atviks,“ en hann segir bílinn hafa „skynilega og óvænt hraðað sér af sjálfsdáðum og ekið yfir 12 m beð áður en hann klessti á vegg,“ þegar hann ætlaði að leggja bílnum fyrir utan snyrtistofu.

Puzant segir konu sína hafa brennst á höndum þegar loftpúðar bílsins sprungu út og að aðeins heppni hafi orðið til þess að enginn hafi látið lífið: „Þetta hefði hæglega geta orðið banaslys ef bíllinn hefði ekki verið í örlítilli vinsti beygju. Ef hann hefði stefnt beint hefði hann ekið yfir beðið og beint inn á stofuna og slasað eða drepið þá sem þar voru.“

Maðurinn hafði samband við vegaaðstoð Tesla og var beðinn um að láta draga bílinn á geymslusvæði sem hann og gerði.

Tesla gaf út svohljóðandi yfirlýsingu um málið eftir að hafa farið yfir akstursferil bílsins, nokkurs konar svarta kassa, í skrám sínum og komist að þeirri niðurstöðu að slysið væri ökumannsmistök:

Við fórum yfir akstursferil bílsins en hann staðfestir að þessum tiltekna Model X var ekið af ökumanni en var ekki í sjálfstýringarham né með hraðastilli stilltan þegar slysið varð né heldur mínúturnar fram að því. Gögn sýna að bíllinn var á 10 km/klst þegar hröðunarpedala var skyndilega þrýst í 100% [gjöf]. Í samræmi við gjörðir ökumanns hraðaði bíllinn sér samkvæmt leiðbeiningum. Öryggi er forgangsatriði hjá Tesla og við hönnum og smíðum bíla okkar með það fremst í huga. Við erum ánægð með að ökumaðurinn sé í lagi og biðjum viðskiptavini okkar um að sýna örugga hegðun við akstur bíla okkar.

Hvort um ökumannsmistök sé að ræða eða Model X búi yfir leyndum galla verður að koma í ljós en hendi þetta ekki aðra Model X eigendur verður þetta að teljast ansi aumt yfirklór manns sem einfaldlega hefur ekki ráðið við 463 hestafla bílinn.

DEILA Á