Kemur arftaki McLaren 650S 2017?

98

Þrátt fyrir að 650S hafi verið settur á markað árið 2014 fær hann mögulega arftaka strax á næsta ári.

McLaren gerir ráð fyrir í Track 22 áætluninni sem kynnt var fyrr í ár að árið 2022 hafi breski sportbílaframleiðandinn sett 15 nýja bíla á markað. Samkvæmt Autocar verður fyrsti bíllinn til að fá arftaka 650S úr Super seríu McLaren en hann mun að líkindum verða frumsýndur á bílasýningunni í Genf næsta vor.

Bíllinn hefur vinnuheitið P14 en hann mun ekki notast við næstu kynslóðar koltrefja undirvagn McLaren heldur núverandi MonoCell undirvagn 650S og einnig sömu twin turbo V8 vélina en í 650S skilar hún 650 hestöflum og togar 678 Nm. Miklar vangaveltur hafa verið um að í arftakanum muni vélin skila yfir 700 hestöflum en talsmaður McLaren segir það ólíklegt.

Hvað útlit varðar hefur McLaren lýst P14 sem stóru skrefi fram á við en bíllinn nýtur góðs af róttækri, virkri loftaflfræði. Að sögn hönnunarstjóra McLaren, Frank Stephenson, hefur hönnunardeild fyrirtækisins unnið náið með verkfræðiteymi sportbílaframleiðandans til að tryggja að útlit bílsins verði framkvæmanlegt:

Þetta snýst ekki um að við sköpum eitthvað fallegt og hendum því svo í verkfræðinganna og segjum við þá „smíðið þetta“ og þeir svara „við getum það ekki“.

Búist er við að nýji P14 verði fyrsti bíllinn til að fá nýtt hönnunarmál McLaren en staðfest hefur verið að stjórnklefi bílsins verði mikið uppfærður með betra skipulagi.

Í Track 22 áætluninni gerir McLaren ráð að helmingur bíla sinna verði tvinnbílar. Ekki er gert ráð fyrir arftaka toppmódels McLaren, P1, í áætluninni en þó bætist nýr tvinnofurbíll við Ultimate seríuna.

DEILA Á