Jeep Grand Cherokee Summit nú enn íburðarmeiri

486

Jeep Grand Cherokee í Summit útfærslu, sem er íburðarmesta útfærsla bílsins, verður enn íburðarmeiri frá og með 2017 árgerð. Jeep kynnir bílinn á bílasýningunni í New York sem stendur nú yfir.

Bíllinn kemur hlaðinn þægindamiðuðum staðalbúnaði og segir Jeep hann vera íburðarmesta bílinn í flokki fullvaxinna sportjeppa.

Að utan fær nýr Summit nýtt útlit á framstuðara og grill ásamt LED þokuljósum að framan auk nýrra 20″ álfelgna.

Glæsileg innrétting

Ný leðurinnrétting í litunum Indigo og Ski gray bætist við litaúrval Summit og þar með verður hægt að velja milli fjögurra lita á innréttingu en fyrir má fá svarta, brúna og sienna dökkbrúna innréttingu. Nappa leður er á mælaborði, miðjustokk og í hurðaspjöldum en Laguna leður á sætum með fallegum ísaumi á jöðrum.

Innri þakklæðning er úr suede leðri, lýsing er í hurðafölsum og vel er lagt í alla hljóðeinangrun en t.d. eru framrúða og hliðargler hjóðdeyfandi. Eðal Berber teppamottur eru í gólfum og 19 hátalara, 825 w Harman/Kardon hljómflutningstæki með þremur subwooferum skila ökumanni og farþegum kristaltærum tónum.

Tækni- og drifbúnaður í fremstu röð

Nóg er af tæknibúnaði í nýjum Summit. Má þar nefna árekstrarvara, hraðaaðlagandi hraðastilli, blindpunktsviðvörun og, í fyrsta sinn í Grand Cherokee, akgreinavara og bílastæðaaðstoð sem getur lagt í stæði samsíða og þvert á aksturstefnu.

Summit fær Quadra-Drive II fjórhjóladrifskerfi Jeep með rafrænu tregðutengdu mismunadrifi líkt og ný Trailhawk útgáfa Grand Cherokee. Þá er Summit einnig búinn Quadra-Lift loftpúðafjöðrunarkerfi auk Selec-Speed torfæruhraðastillis.

Jeep Grand Cherokee Summit fæst í átta mismunandi litum og fer í sölu í sumar sem 2017 árgerð.