Jeep Grand Cherokee nú í Trailhawk útgáfu

775

Á bílasýningunni í New York sýnir Jeep Grand Cherokee í nýrri Trailhawk útgáfu. Trailhawk nafnið birtist fyrst á Grand Cherokee hugmyndabíl sem Jeep sendi á MOAB páskasafaríið 2012.

Fyrsti framleiðslubíll Jeep til að bera Trailhawk nafnið var 2014 Cherokee. Ári seinna kom Renegade í Trailhawk útgáfu og nú bætist Grand Cherokee við en Trailhawk verður sjötta týpan sem í boði er af honum. Hugmyndin á bak við Trailhawk línu Jeep er að þær týpur sem nafnið beri séu þeir öflugustu í torfærum í hverri línu Jeep auk þess að búa yfir harðgerðu útliti og margvíslegum nytsamlegum, torfærutengdum búnaði.

Dugandi búnaður

Torfærutengdur búnaður sem kemur í Grand Cherokee Trailhawk er meðal annars Quadra-Drive II fjórhjóladrifskerfi Jeep með rafrænt tregðutengt mismunadrif og sérútgáfu af Quadra-Lift loftpúðafjöðrunarkerfinu, hannað fyrir Trailhawk, sem gefur aukna teygju og lengri fjöðrunarferil. Einnig er Selec-speed control búnaður sem er einskonar torfæruhraðastillir og Hill descent control sem viðheldur jöfnum hraða niður brekkur.

Aðkomuhorn Trailhawk er 29,8° en hægt er að taka neðri svuntu af og verður hornið þá 36,1°. Undirhorn Trailhawk er 27,1° og fráhorn 22,8°. Undir lægsta punkt eru 27,5 cm.

Einkennandi útlit

Að utan ber Trailhawk sama sjö raufa grill og 75 ára afmælisútgáfa 2016 Grand Cherokee og er auðkenndur af rauðum dráttarkrókum að framan og aftan auk svartmálaðs húdds að hluta. 18″ álfelgur eru staðalbúnaður en 20″ felgur klæddar kevlarstyrktum Goodyear dekkjum eru í boði. Bíllinn er merktur „Trailhawk“ með rauðleitum merkjum en spegilhús og þakbogar eru grá að lit.

Að innan er innrétting Trailhawk svört og sæti eru klædd leðri og suede með rauðum saumum sem einnig er að finna á hurðaspjöldum og armpúða. Mælaborð er auk þess skreytt píanósvörtum innleggjum, gun-metal litur er á lökkuðum innanstokksmunum og Trailhawk merki er á stýrishjóli. 8,4″ Uconnect snertiskjár er staðalbúnaður en á honum má meðal annars sjá teygju hjóla í torfærum auk fleiri torfærutengdra fítusa.

Trailhawk fæst í redline rauðum, billet silfruðum, bright hvítum, granite crystal gráum, velvet rauðum og diamond svörtum litum.

Jeep Grand Cherokee Trailhawk fer í sölu vestanhafs í sumar.