Jaguar áætlar skutbílsútgáfu XF

42
2007-15 Jaguar XF

Jaguar á í harðri samkeppni á markaði lúxusbíla við framleiðendur á borð við Mercedes-Benz, Audi, BMW og Volvo. Fólksbíla sænska og þýsku framleiðendanna má flesta fá í skutbílsútgáfum og til að heltast ekki úr lestinni áætlar Jaguar að kynna XF bíl sinn í skutbílsútgáfu áður en langt um líður.

Áður höfðu borist fréttir af því að yfirhönnuður Jaguar, Ian Callum, hafi greint frá því að Jaguar myndi ekki framleiða fleiri skutbíla en þá var rangt haft eftir honum er hann sagði að Jaguar myndi ekki framleiða XE skutbíl. Nú er sagt útlit fyrir að Jaguar muni frumsýna XF skutbílinn á bílasýningunni í París í haust.

Callum segist sjálfur vera afar hrifinn af skutbílum og að hann búist við því að Kína muni áður en langt um líður læra að meta þá en það er markaður sem bílaframleiðendur taka æ meira tillit til við vöruþróun sína.

XF skutbíllinn er sagður munu hafa coupe-laga þaklínu og að afturendi bílsins verði innblásinn af F-Pace sportjeppanum. Vélarúrval verður það sama og í stallbaknum en einnig er SVR sportútgáfa sögð á teikniborðinu til höfuðs Audi RS6 og Mercedes E63 AMG.

Athugið að myndir eru af síðustu kynslóð Jaguar XF skutbílsins.

DEILA Á