Ítalska herlögreglan fær tvo Alfa Romeo Giulia

244

Ítalska herlögreglan, Arma dei Carabinieri, hefur fengið tvo nýja, sérbreytta Alfa Romeo Giulia QV í sína þjónustu.

Bílarnir verða öflugustu bílar ítalska lögregluflotans en áður héldu tveir Lotus Evora S bílar, sem Carabinieri fengu afhenta 2011, þeim titli. Það þótti skjóta skökku við á sínum tíma að breskir bílar væru fengnir í þjónustu herlögreglu Ítalíu, landið verandi nánast Mekka sportbílaframleiðslu í heiminum auk þess sem einkunnarorð Carabinieri eru „Trúfastir gegnum aldirnar“ og þótti mörgum kaupin á Lotus jaðra við framhjáhald. Ítalskir framleiðendur hafa nú endurheimt stoltið en Ölfurnar voru afhentar á fimmtudag að viðstöddum forstjóra FCA, Sergio Marchionne.

Giulia bílarnir tveir fara hvor til sinnar borgarinnar, annar til Rómar en hinn til Mílanó. Þar munu þeir þjóna neyðarviðbragðateymi herlögreglunnar sem getur þurft að komast hratt á milli staða. Aðeins fáir meðlimir Carabinieri munu fá akstursheimild á bílana en þeir heppnu verða sérþjálfaðir í akstri þeirra af leiðbeinendum Alfa Romeo.

Aflrás bílanna er sú sama og í hefðbundum Giulia Quadrifoglio Verde. 2.9L twin turbo V6 vélin er 510 hestöfl og kemur bílnum 100 km hraða á aðeins 3,9 sekúndum. Bílunum var þó sérbreytt fyrir hlutverk sín og koma búnir ýmiskonar búnaði sem störfum herlögrelunnar tengjast s.s. LED lögregluljós á toppi, spjaldtölvu í innréttingu auk þess sem kylfu og spaða til umferðarstjórnunar hefur verið komið haganlega fyrir í hurðum.

Alfa Romeo hafa áður verið í þjónustu Carabinieri en bæði 156 og 159, forverar Giulia, hafa gegnt skyldustörfum.