Ís-Band hefur tryggt sér FCA umboðið

1270

Á næstu mánuðum mun umboð með bílamerki Fiat Chrysler Automobiles opna hérlendis en það eru forsvarsmenn bílasölunnar og innfluningsaðilans Ís-Band í Mosfellsbæ sem hafa tryggt sér umboðið.

Vinna við verkefnið hefur staðið yfir nokkuð lengi en fyrir nokkrum mánuðum var skrifað undir samning við FCA á Ítalíu og í Bandaríkjunum. Ís-Band mun hefja innflutning á og hafa umboð fyrir bíla FCA en merki samsteypunnar eru Fiat, Fiat Professional, Jeep, Ram Trucks, Dodge, Chrysler, Lancia, Maserati og Alfa Romeo auk Abarth og Mopar.

Endanlegar tímasetningar formlegrar opnunar eru enn ekki komnar á hreint en líklegast er að formleg opnun verði í september. Þó eru á leiðinni Fiat, Fiat Professional, Jeep, Ram og Dodge Durango bílar sem munu koma á næstu vikum til landsins en Alfa Romeo og Chrysler bílar munu bíða fram yfir áramót. Ís-Band hefur þegar tryggt sér húsnæði undir verkstæði og varahlutaverslun.

FCA samsteypan varð til í október 2014 þegar Fiat S.p.A hafði lokið við yfirtöku á Chrysler Group LLC sem hafði orðið gjaldþrota 2009. Fiat var stofnað árið 1899 og Chrysler 1925. FCA er sjöundi stærsti bílaframleiðandi í heimi en bæði Fiat og Chrysler hafa verið án formlegs umboðsaðila hér á landi um árabil.

Ís-Band var stofnað árið 1998 og hefur sérhæft sig í innflutningi nýrra og notaðra bíla frá Bandaríkjunum, Kanada og Evrópu ásamt fellihýsum og fleiru. Stór hluti þeirra Jeep og Dodge bíla sem hafa verið fluttir inn til Íslands undanfarin ár hafa verið fluttir inn af Ís-Band.