Honda Civic Type-R setti met framdrifsbíla á fimm brautum

368

Honda Civic Type-R setti met framdrifsbíla um Nürburgring Norschleife fyrir tveimur árum þegar bíllinn fór hringinn á 7:50:63.

Fyrr í ár tók Volkswagen Golf GTI Clubsport S titilinn af Civic Type-R en það dró ekki tennurnar úr Honda sem hefur eytt vorinu í að setja met framdrifsbíla á fimm annáluðum brautum í Evrópu; Silverstone, Spa-Francorchamps, Monza, Estoril og Hungaroring.

Silverstone

Í apríl lét japanski framleiðandinn vaða á Silverstone í Bretlandi þar sem þrefaldi BTCC meistarinn Matt Neal setti tímann 2:44.45 á blautri brautinni. Neal var hins vegar ekki sáttur og reyndi aftur í maí og þá á þurri braut og setti þá brautarmet framdrifsbíla þegar hann fór hringinn á 2:31.85.

Spa-Francorchamps

Næst á dagskrá var hin rómaða, belgíska braut Spa-Francorchamps en nú var Rob Huff undir stýri. Hann náði takmarkinu á tímanum 2:56.91.

Monza

Á ítölsku brautinni Monza var WTCC ökumaður Honda, Norbert Michelisz, látinn sjá um aksturinn en hann náði tímanum 2:15.16.

Estoril

Fyrrum F1 ökumaðurinn og liðsfélagi Michelisz, Tiago Monteiro, fékk það verkefni að slá framdrifsmetið á portúgölsku Estoril brautinni en óhapp í WTCC í Þýskalandi gerði honum það ókleift. Ökumaður öryggisbíls WTCC, Bruno Correia fékk því verkefnið og leysti það með sóma á tímanum 2:40.08.

Hungaroring

Að lokum settist Michelisz aftur í ökumannsstólinn í Civicnum og setti tímann 2:10.85 um ungversku brautina Hungaroring.

Honda segir bílinn hafa verið algerlega óbreyttann og á götudekkjum. 2.0L K20C1 L4 turbo vél Civic Type-R skilar 306 hestöflum og togar 400 Nm. Við vélina er sex gíra beinskipting og tregðutengt mismunadrif er staðalbúnaður. 0-100 spretturinn tekur 5,7 sekúndur og hámarshraði er 269 km/klst. Kvartmíluna fer Civic Type-R á 14,1 sekúndu á 169,9 km hraða.

DEILA Á