Hindraði sjúkrabíl í forgangsakstri

267

Sjúkraflutningamenn í Trencin í Slóvakíu lentu í ótrúlegu atriði í forgangsakstri í lok maí þegar ökumaður Mercedes-Benz SLK hékk fyrir framan þá og tróð sér milli bíla sem fært höfðu sig úr vegi sjúkrabílsins.

Boris Zahumensky (45) heitir ökumaður Benzins og í viðtali við Nový Cas segist hann ekki vita hvað hafi komið yfir sig. Í sjúkrabílnum var Anna Majdúchová (84) á leið til aðhlynningar á sjúkrahúsi með úlnliðsbrot.

Elena Antalová, talskona lögreglunnar, staðfesti að Zahumensky hafi verið sviptur ökuréttindum tímabundið. Zahumensky hafði leyfi fyrir þónokkrum byssum en hann var einnig sviptur þeim auk þess sem hann hefur sagt sig úr stjórnmálaflokknum KDH til að varpa ekki rýrð á hann en slóvakíska netið hefur logað vegna málsins.

Lögregla mun fara yfir myndbandið og ákæra Zahumensky fyrir umferðarlagabrot sín.