Hennessey F-150 VelociRaptor á leið á uppboð

169

Allir aðdáendur Top Gear muna eftir því þegar Jeremy Clarkson og James May óku pallbílum upp Wolf Mountain í British Columbia fylki í Kanada til að „bjarga“ Richard Hammond sem þar sat fastur. Clarkson valdi Hennessey F-150 VelociRaptor en May Chevrolet Silverado Z71.

VelociRaptor-inn vakti verðskuldaða athygli áhugamanna um pallbíla, og raunar aflmikilla bíla almennt. Enda engin furða, 6.2 L V8 vélin í bílnum er 623 hestöfl og skilar honum í 100 km hraða á 5,2 sekúndum auk þess sem bíllinn kom hlaðinn aukahlutum.

Hver sem gat pungað út 11,6 milljónum gat keypt VelociRaptor hjá Hennessey en nú ætlar breytingarfyrirtækið að setja eintakið sem Jeremy Clarkson ók í þættinum á uppboð.

Uppboðið verður haldið í Flórída 8. apríl næstkomandi af Barnett-Jackson uppboðshúsinu. Allur ágóði rennur til góðgerðarfélagsins Paralyzed Veterans of America, PVA, sem styður bandaríska hermenn sem lamast hafa við skyldustörf.