Harley-Davidson mun framleiða rafmótorhjól

161
Harley-Davidson LiveWire hugmyndarafmótorhjólið.

Nú er það komið bersýnilega í ljós að rafvæðingin lætur engan framleiðanda ósnertann en mótorhjólaframleiðandinn goðsagnakenndi, Harley-Davidson, mun framleiða rafmótorhjól innan fimm ára.

V-Twin og Revolution vélar Harley Davidson hafa sérstakan og einstakan hljóm sem aðskilur ameríska framleiðandann frá öðrum. En brátt þurfa aðdáendur Harley-Davidson að venjast því að heyra rafmótorhvin frá sumum hjólum framleiðandans frá Milwaukee.

Mótorhjólaritið Asphalt & Rubber hefur það eftir Milwaukee Business Journal að varaforseti Harley-Davidson, Sean Cummings, hafi staðfest að fyrirtækið muni framleiða og setja rafmótorhjól á markað innan fimm ára.

Enn eru smáatriði um væntanlega hjólið á huldu en fyrir tveimur árum kynnti framleiðandinn hugmyndarafmótorhjól sem smíðað var í samstarfi við Mission Motors og hét LiveWire. Hjólið var ekki síst smíðað til að fá viðbrögð aðdáenda og almennings og þó það sé erfitt að gera sér í hugarlund að harðkjarna aðdáendur Harley-Davidson láti til leiðast að kaupa rafmótorhjól hlýtur framleiðandinn að hafa fengið jákvæð viðbrögð fyrst þeir ætla að láta slag standa.