Golf skutbíll myndsettur í GTI Clubsport S útfærslu

159

Kraftmiklir skutbílar hafa meira verið blæti Audi, Mercedes-Benz og BMW en Volkswagen þó að VW ætti að hafa alla burði til að blanda sér í þann slag, á öðrum forsendum þó.

Í tilefni þess að VW Golf GTI Clubsport S setti met framdrifinna bíla um Nürburgring Nordschleife hefur ungverski myndsetjarinn X-Tomi nú myndsett Golf skutbíl í Clubsport S útfærslu.

2.0L vélin í Clubsport S er 306 hestöfl og togar 380 Nm og skilar bílnum í 100 km hraða á 5,8 sekúndum. Hámarkshraði er 265 km/klst.

Golf GTI Clubman S fæst í þremur litum, Pure White, Tornado Red og Deep Black Pearl en Ungverjinn valdi Tornado Red fyrir myndsetningu sína.

Eins vel og bíllinn lítur út yrði skutbílsútgáfa Clubsport S heldur tilgangslítil því frumforsenda skutbíla er jú notagildi en í Clubsport S er búið að taka aftursætin úr bílnum til að létta hann. Skottið í Clubsport S skutbíl yrði því eitt stórt gímald. Þá er spurning hvort við séum ekki að horfa á einn snarasta sendibíl heims?