Genf 2016: Alfa Romeo kynnir Giulia

289

Giulia markar upphaf nýs tímabils ítalska bílaframleiðandans. Frá og með Giulia ætlar Alfa Romeo að skipta úr framdrifnum bílum yfir í afturdrifna.

Giulia er, að sögn Alfa Romeo, hönnuð á greinilegan ítalskan hátt og einkennist af óaðfinnanlegum skilningi á hlutföllum og einfaldleika.

Bíllinn verður í boði í þremur útfærslum; Giulia, Super og Quatrifoglio. Super útfærslan fær hágæða leðurinnréttingu með viðarskreytingum úr alvöru viði auk 18″ felgna, Connect 3D Nav margmiðlunarkerfi með 8,8″ skjá og gírskiptiflipa við stýri úr áli. Quadrifolgio útfærslan fær að auki togstýringu (e. torque vectoring) sem tryggir hámarks togdreifingu milli afturhjólanna og virka vinskeið sem skaffar niðurtog á háum hraða en í Quadrifoglio útfærslu er bíllinn gríðar öflugur og setti nýlega tímamet stallbaka á Nürburgring.

Sex vélar munu bjóðast í Giulia en til að byrja með stendur valið milli fjögurra; 150 hestafla og 180 hestafla 2.2 diesel vélar með 6 gíra beinskiptingu eða 8 þrepa sjálfskiptingu. Bensínvélarnar tvær eru annars vegar 2.0 lítra forþjöppuð 200 hestafla vél sem togar 330 Nm og 2.9 V6 twin turbo vél Quadrifoglio útgáfunnar sem er 510 hestöfl og togar 600 Nm.

Alfa Romeo tekur við pöntunum í Evrópu, Miðausturlöndum og í Afríku frá og með 15. apríl næstkomandi.

DEILA Á