Gat ekki stillt sig og stal fokdýrum Porsche 918 Spyder

216

Maður að nafni Francisco Gonzalez-Velasques er í haldi lögreglunnar í Salt Lake City eftir að hafa stolið Porsche 918 Spyder frá Porsche umboði þar í borg.

22 ára gamall maðurinn sá bílinn í sýningarsal umboðsins og gat ekki stillt sig um að reynsluaka honum. Og það án þess að spyrja kóng eða prest. Klukkan 16:30 síðdegis.

Þetta gat að sjálfsögðu aðeins farið á einn veg en það tók lögregluna þó sex klukkustundir að hafa hendur í hári mannsins. Ofurbíllinn var óskemmdur en Gonzalez-Velasques á yfir höfði sér ákæru fyrir innbrot og þjófnað að því er KUTV greinir frá.

Bíllinn er kominn aftur í sýningarsal umboðsins en það er ekki erfitt að skilja hvers vegna löngunin til að taka í 1,6 milljón dollara (196 m. kr.), 887 hestafla og 1.280 Nm ofurbíllinn beri skynsemi manna ofurliði.