Frá frumsýningu Mazzanti Evantra Millecavalli

111

Mazzanti Evantra Millecavalli var frumsýndur á bílasýningunni í Tórínó sem fram fór 8.-12. júní síðastliðinn. Um 650.000 manns sóttu sýninguna heim og Mazzanti hefur nú sent frá sér myndir frá frumsýningunni.

Millecavalli byggir á Evantra bíl Mazzanti sem kom á markað fyrir þremur árum en bíllinn er öfgafyllri útgáfa hans. Á ítölsku þýðir „mille cavalli“ þúsund hestar en nafnið skírskotar til hestaflatölu 7.2L bi-turbo V8 vélarinnar sem skilar 1.000 hestöflum og togar 1.200 Nm. Hestarnir þúsund duga bílnum til að ná 100 km hraða á aðeins 2,7 sekúndum og hámarkshraði er sagður 402 km/klst. Mazzanti segir bílinn öflugasta götulöglega bíl sem komið hefur frá Ítalíu en LaFerrari vermir nú annað sætið með sín 950 hestöfl.

Luca Mazzanti, stofnandi og eigandi Mazzanti Automobili var ánægður með frumsýninguna:

Salone Auto Torino fór frábærlega fram og staðfesti jákvæða þróun sem hefur átt sér stað hjá Mazzanti Automobili undanfarna mánuði. Að kynna í Tórínó minn fullkomna ofurbíl, Evantra Millecavalli, hefur fyrir mér djúpa merkingu: öflugast götulöglegi bíll sem framleiddur hefur verið á Ítalíu kynntur á ítalskri bílasýningu. 

Að hitta bíláhugamenn á öllum aldri sem kunna að meta og dást að afrekinu sem eintakið á sýningunni í Tórínó stóð fyrir var ánægjulegt og hvetur okkur áfram til að ná nýjum markmiðum. Skipuleggjendur sýningarinnar bjuggust ekki við svo mörgum gestum sem sýnir að nýjungargjörn og byltingarkennd verkefni eru sigurblandan.

Evantra Millecavalli náði metnaðarfullu markmiði og setti Ítalíumet sem sýnir að ástríðan og þekkingin sem hafa verið sérkenni okkar eru nauðsynleg í okkar starfi. Evantra Millecavalli hefur fengið töfrandi og jákvæða umfjöllun í miðlum um allan heim og ég fullvissa ykkur um að þetta er bara byrjunin.

Aðeins 25 eintök verða framleidd en verðmiðinn hefur enn ekki verið opinberaður þó búast megi við að hann sé ansi hærri en 116 milljón króna verðmiði hefbundins Evantra. Þrjú eintök eru þegar seld.