Ford Sierra RS Cosworth sem Clarkson ók í Top Gear á uppboði

151

Aðdáendur Top Gear muna eflaust margir eftir þætti frá 2010 þar sem Jeremy Clarkson, Richard Hammond og James May fengu hver um sig 5.000 pund til að kaupa öflugan fjögurra dyra bíl sem ætti erindi sem erfiði á brautardegi.

James May keypti Mercedes Benz 190E 2.3-16 Cosworth og Richard Hammond E36 BMW M3 en Jeremy Clarkson valdi Ford Sierra Sapphire RS Cosworth og sá bíll verður á uppboði Classic Car Auctions í Warwickshire í Bretlandi á laugardag. Í innslaginu kom Clarkson bílnum, þá 21 árs gömlum, í 228 km hraða á Autobahn en upphaflegur hámarkshraði var 241 km/klst auk þess sem bíllinn kom mun betur út úr skoðun þýskra skoðunarmanna en hinir tveir.

Upphaflegi Ford Sierra RS Cosworth var fyrsti Fordinn til að bera Cosworth merkið og var kynntur til sögunnar á bílasýningunni í Genf 1985. Hann var framleiddur til að standast inngöngukröfur Group A Touringbílakeppninnar en reglur kváðu á um að keppnisbílar yrðu að byggja á framleiðslubíl sem seldur væri í tilteknum fjölda á almennum markaði.

Bíllinn sem um ræðir er af annarri kynslóð og fjögurra dyra með hægri handar stýri en slíkir bílar báru Sapphire heitið til aðgreiningar frá öðrum Sierra RS Cosworth. Sapphire var framleiddur í verksmiðju Ford í Genk í Belgíu og hafði YBB Cosworth turbo vél sem var 2.0L fjögurra strokka og 204 hestöfl. Sapphire náði 100 km hraða á sléttum 6 sekúndum.

Núverandi eigandi hefur átt bílinn í um ár en hann er ekinn 82.000 mílur eða um 132.000 km. Með honum fylgja bækur sem sýna hluta þjónustusögu. Bíllinn var skoðaður í mars síðastliðnum án athugasemda en í ástandsskoðun Classic Car Auctions fyrir uppboðið fær hann 81 stig af 135 mögulegum.

Búist er við að bíllinn verði sleginn á 2,3-2,8 milljónir króna.

Ólíkt manni sem fyrir skemmstu keypti óafvitandi M3 sem hafði verið í Top Gear sér eigandi þessa Sierra Sapphire RS Cosworth virði í því að Jeremy Clarkson hafi farið höndum um bílinn.